Líflegt sumar hjá Golfklúbbi Hornafjarðar

0
269
Kvennasveit GHH

Mótahald hjá Golfklúbbi Hornafjarðar hefur verið fjörugt það sem af er sumri, fjöldi móta hefur verið haldinn og margir keppendur hafa tekið þátt sem er sérstaklega ánægjulegt. Í júlí var haldið golfnámskeið og golfmót fyrir börn sem um 30 börn sóttu undir handleiðslu þeirra Steinars Kristjánssonar og Sindra Ragnarssonar. Sérstaklega vel heppnað og gaman að sjá áhugann hjá börnunum aukast eftir námskeiðið.
Kvennagolfið er alltaf á sínum stað á þriðjudögum en veðurguðirnir hafa ekki verið hliðhollir golfkonum það sem af er sumri og hefur það haft áhrif á mætinguna. Nýjar konur eru ávallt boðnar velkomnar og reyndari goflarar eru boðnir og búnir að aðstoða nýliða við fyrstu skrefin í íþróttinni.
Karlasveit GHH fór í Sveitakeppni Austurlands sem haldin var á Byggðarholtsvelli á Eskifirði í lok júlí og sigraði í þeirri keppni með glæsibrag sem gefur þeim titilinn Austurlandsmeistarar í golfi. Í sveitinni voru þeir Halldór Sævar Birgisson, Óli Kristján Benediktsson, Halldór Steinar Kristjánsson, Jón Guðni Sigurðsson, Kristinn Justiniano Snjólfsson, Stefán Viðar Sigtryggsson og Sindri Ragnarsson. Þeir sigruðu í öllum sínum leikjum örugglega nema einn þar sem var jafntefli.
Á sama tíma sendi GHH kvennasveit til keppni í Íslandsmóti í 2. deild kvenna í fyrsta skipti. Sveitina skipuðu Jóna Benný Kristjánsdóttir, Bergþóra Ólafía Ágústsdóttir, Lilja Rós Aðalsteinsdóttir, Þórgunnur Torfadóttir og Ólöf Þórhalla Magnúsdóttir. Liðsstjóri var Anna Eyrún Halldórsdóttir. Liðið náði þeim frábæra árangri að lenda í 7. sæti eftir höggleikinn svo þær komust áfram í holukeppni um 5. – 8. sætið. Það var ekki síst frábærri spilamennsku Bergþóru Ólafíu Ágústsdóttur að þakka að liðið komst áfram en hún lék seinni daginn í holukeppni á 83 höggum. Liðið tapaði því miður báðum leikjum í holukeppninni en það munaði sáralitlu að jafntefli næðist í leik um 7. sætið, en það má segja að liðið hafi svo sannarlega komið reynslunni ríkari heim frá mótinu.
Úrslit í mótum GHH það sem af er sumri eru eftirfarandi:
Snærisleikur Góu var haldinn 22. maí og voru Kristinn Justiniano Snjólfsson og Gestur Halldórsson jafnir í 1.sæti með 33 högg. Sævar Knútur Hannesson var í 3. sæti með 34 högg.
Minningarmót Gunnars Hersis Benediktssonar var haldið 10. júní og var Óli Kristján Benediktsson í 1. sæti í höggleik með 35 högg. Í punktakeppni sigraði Hreiðar Bragi Valgeirsson með 22 punkta. Í 2. sæti var Stefán Viðar Sigtryggsson með 21 punkt og Júlíús Freyr Valgeirsson var í 3. sæti með 19 punkta.

Opna Skinneyjar-Þinganess­mótið var haldið um Humarhátíð og var Óli Kristján Benediktsson hlutskarpastur með 81 högg. Í punktakeppni karla var Sindri Ragnarsson í fyrsta sæti með 33 punkta í öðru sæti var Marteinn Óli Skarphéðinsson einnig með 33 punkta og varð Sævar Knútur Hannesson í þriðjasæti með 32 punkta . Í punktakeppni kvenna var Jóna Benný Kristjánsdóttir í 1. sæti með 34 punkta, Anna Eyrún Halldórsdóttir í 2. sæti með 33 punkta og Margrét Vera Knútsdóttir í því þriðja með 31 punkt.
Veitt voru Nándarverðlaun á par 3 brautum á vellinum og þau hlutu Halldór Steinar Kristjánsson, Jón Guðni Sigurðsson og Sindri Ragnarsson.
Meistaramót GHH var haldið 8. – 10. júlí og urðu þau Halldór Sævar Birgisson og Jóna Benný Kristjánsdóttir klúbbmeistarar GHH. Keppt er í nokkrum flokkum og það er vægt til orða tekið að lokadagurinn hafi verið spennandi þar sem áhugasamir gátu fylgst með skori kylfinga í beinni útsendingu í golfboxinu og í Skálanum. Úrslit í mótinu voru eftirfarandi:

Meistaraflokkur karla:
1. Halldór Sævar Birgisson með 228 högg
2. Óli Kristján Benediktsson með 231 högg
3. Halldór Steinar Kristjánsson með 233 högg

Meistaraflokkur kvenna:
1. Jóna Benný Kristjánsdóttir með 202 högg
2. Ólöf Þórhalla Magnúsdóttir með 208 högg

1. flokkur karla:
Haraldur Jónsson með 180 högg (sigur e. bráðabana)
Sindri Ragnarsson með 180 högg
Finnur Ingi Jónsson með 189 högg

1. flokkur kvenna:
1. Jóna Margrét Jóhannesdóttir 217 högg
2. Alma Þórisdóttir 223 högg
3. Erla Þórhallsdóttir 236 högg

Heldri manna flokkur:
1. Gestur Halldórsson 161 högg
2. Gísli Páll Björnsson 185 högg
3. Grétar Vilbergsson 218 högg

Húsasmiðjumótið var haldið þann 17. júlí og í karlaflokki í punktakeppni varð Gísli Kristján Birgisson í 1. sæti með 40 punkta. Í 2. sæti var Kristinn Justiniano Snjólfsson með 39 punkta og Gestur Halldórsson var þriðji með 39 punkta. Í kvennaflokki var Jóna Benný í fyrsta sæti með 37 punkta og í 2. sæti var Þórgunnur Torfadóttir með 36 punkta og Lilja Rós Aðalsteinsdóttir var þriðja með 35 punkta.
Nándarverðlaun á par 3 brautum hlutu þau Gestur Halldórsson, Óli Kristján Benediktsson og Jóna Benný Kristjánsdóttir.
Landsbankamótið fór fram 6. ágúst síðastliðin.
Sigurvegarar í höggleik í karla- og kvennaflokki voru Halldór Steinar Kristjánsson með 73 högg og Jóna Benný Kristjánsdóttir með 82 högg.
Í punktakeppni karla sigraði Óðinn Gunnarsson með 38 punkta. Ásgrímur Ingólfsson var í 2. sæti með 37 punkta og í 3. sæti var Aðalsteinn Ingólfsson með 36 punkta. Í kvennaflokki sigraði Katrín Gísladóttir með 38 punkta. Erla Þórhallsdóttir varð í öðru sæti með 34 punkta og í 3. sæti varð Lilja Rós Aðalsteinsdóttir með 33 punkta.

Karlasveit GHH

Sérstaklega skemmtileg mót eru í gangi núna sem ná yfir allt sumarið, mótaröð Medial og Prósjoppunnar og Holukeppni GHH. Nú er að koma að 8 manna úrslitum í holukeppninni þar sem hart verður barist um að komast áfram og verður áfram skemmtilegt að fylgjast með þeirri keppni. Mótaröðin er rúmlega hálfnuð og er spennandi síðari hluti framundan en í dag leiðir Björn Sigfinnsson forgjafarflokk 20+ með 85 punkta og Guðjón Björnsson leiðir forgjafarflokk undir 20 með 92 punkta.
Þá er gaman að segja frá því að Halldór Sævar Birgisson tók þátt í Evrópumóti eldri kylfinga í Eistlandi 9. – 11. júní sl. og var sínum klúbbi til sóma eins og hans var von og vísa.
Núna um helgina verður Íslandsmót í 5. deild karla haldið á Silfurnesvelli. Okkar menn í karlasveit GHH mæta þar til leiks og verður gríðarlega gaman að fylgjast með þeim um helgina. Sveitina skipa Halldór Sævar Birgisson, Óli Kristján Benediktsson, Halldór Steinar Kristjánsson, Jón Guðni Sigurðsson og Kristinn Justiniano Snjólfsson. Liðsstjóri er Sindri Ragnarsson. Við hvetjum alla áhugasama að kíkja við í golfskálanum og fylgjast með þeim en keppni hefst á föstudagsmorgun og henni lýkur á sunnudag.
Þá verður Sveitakeppni Austurlands haldin í fyrsta skipti í kvennaflokkum á Silfurnesvelli helgina 10. – 11. september nk. Nánar verður sagt frá þeirri keppni þegar nær dregur, en það má sannarlega segja að það sé nóg um að vera hjá GHH og sérstaklega skemmtilegt hversu ötulir félagsmenn eru að taka þátt í starfinu.

Mótanefnd GHH