„Hjálpum börnum heimsins“

0
454
Svipmyndir úr starfi Kiwanis

Kjörorð Kiwanis stendur vel undir nafni, en ágóði af Groddaveislu Kiwanisklúbbsins Óss mun renna til styrktar flóttabörnum frá Úkraínu að upphæð krónum 400.000. Félagi í Ós er með sterk tengsl við Úkraínu og liggja tengsl Kiwanishreyfingarinnar í Evrópu sterk til hjálpar. Klúbbar í Rúmeníu, Póllandi og Austurríki til að nefna nokkra eru að aðstoða flóttafólk við landamærin, og senda mat og nauðsynjar til Kiwanisklúbba í Úkraínu til að dreifa þar. Kiwanis Children Fund í Evrópu er með fjöldasöfnun og KCF tengill umdæmis tekur við söfnunarfé og getur gjaldkeri hjá Ós komið söfnunarféinu beint til KCF sem verður lagt inn á reikning Styrktarsjóð hjá Ós 0525-26-000972 merkt „Úkraína“.
Kiwanis er alþjóðleg þjónustuhreyfing manna og kvenna sem hafa það að markmiði að taka þátt í að bæta samfélagið og láta gott af sér leiða undir kjörorðinu: „Hjálpum börnum heimsins“. Hreyfingin leggur áherslu á manngildi og eflingu félagskenndar meðal félagsmanna. Hver Kiwanisklúbbur reynir að þjóna sem best því samfélagi þar sem hann starfar. Í Kiwanis eru kvenna-, karla- og blandaðir klúbbar og er hreyfingin ávallt tilbúin að aðstoða við stofnum nýrra klúbba og taka við nýjum félögum. Það þarf aðeins að senda póst á seinars@kiwanis.is og biðja um að vera með. Vonandi gengur að stofna kvennaklúbb á Höfn á komandi ári en öllum áformum um það hafa seinkað vegna Covid.  
Kiwanisklúbburinn Ós verður 35 ára 2022 og eflaust verður tímamótanna minnst ef það verður mögulegt. En öll erum við farin að vona að Covid hverfi svo lífið verði aftur sem eðlilegast.

En hvað gerir Kiwanisklúbburinn Ós fyrir samfélagið?

Klúbburinn hefur styrktarsjóð til að halda utan um ágóða af verkefnum klúbbsins. Ágóði af árlegri jólatrjásölu, páskabingói og Groddaveislu fer í Styrktarsjóð Óss og er þaðan veitt út til samfélagsins.  Í kringum jólin voru 15 bágstaddar fjölskyldur styrktar með aðstoð NETTÓ. Ós hefur styrkt grunnskólann og framhaldsskólann með veglegum gjöfum í gegnum árin. Heilbrigðisþjónustan hefur fengið sinn hluta af söfnunarfé til tækjakaupa og ýmsar safnanir hafa verið til hjálpar langveikum börnum.
Nefna má fleiri verkefni t.d. Kiwanisdúkkuverkefni. En það eru prestar í Hafnarkirkju sem sjá um að gefa ungum börnum litla tuskudúkku á fjölskyldumorgnum. Enn eitt verkefnið sem Ós styrkir eru sérstök gleraugu sem henta vel í íþróttum og hefur Ungmennafélagið Sindri umsóknarformið til að sækja um slík gleraugu fyrir börn.
Landsverkefni á vegum Kiwanis eru t.d. Grímseyjasöfnun 2021 hjá klúbbum í Kiwanis, hjálmar til barna í samstarfi með Eimskip frá 2003. Evrópuverkefni eru Happy Child stuðningur við börn á flótta í Sýrlandi 2020-2021, skósöfnun til fátækra barna í Rúmeníu 2021. Það sem Kiwanishreyfingin á Íslandi er þekktust fyrir er sala á K-lyklinum sem er seldur undir kjörorðinu „Gleymum ekki geðsjúkum“ á 2-3 ára fresti. 
Helsta heimsverkefni Kiwanis undanfarin 11 ár er útrýming á stífkrampa Maternal/Neonatal Tetanus í samstarfi við UNICEF Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna frá 2010.  Því miður hefur ekki enn náðst að útrýma stífkrampa í nokkrum stríðshrjáðum löndum en í 27 löndum hefur það markmið náðst.  
Sérstakar þakkir fá eftirtalin fyrirtæki; Hafið, Birki, Hans Christensen, Mikael, Martölvan, Þingvað, Húsasmiðjan, Nettó, Ajtel, Múrfeðgar, Flytjandi, Olís, Hvalur hf og Sælgætisgerðin Freyja fyrir aðstoð við hin ýmsu verkefni klúbbsins. Ekki má svo gleyma fjölmörgum félögum í Ós sem vinna við hin ýmsu verkefni.  
 

Stjórn Kiwanisklúbbsins Óss
óskar öllum Hornfirðingum gleðilegra páska