Menningarhátíð í Nýheimum

0
467
Menningarverðlaun 2022 voru afhent föstudaginn 11. mars við hátíðlega athöfn í Nýheimum ásamt styrkjum og viðurkenningum frá Sveitarfélaginu Hornafirði. Hanna Dís Whitehead hlaut menningarverðlaunin í ár. Á myndinni má sjá Hönnu Dís ásamt öðrum viðurkenningar- og styrkhöfum.

Föstudaginn 11. mars var mikið um dýrðir hér í Hornafirði, en þá var haldin vegleg menningarhátíð sveitarfélagsins í Nýheimum, þar voru afhentir styrkir og viðurkenningar þess.
Alls voru 20 styrkir veittir, það voru styrkir atvinnu- og menningarmálanefndar, bæjarráðs, fræðslu- og tómstundanefndar, og styrkir úr atvinnu- og rannsóknasjóði.
Matthildur Ásmundardóttir bæjarstjóri setti hátíðina og kom fram í máli hennar mikilvægi þess að koma saman og fagna fjölbreyttri menningu, umhverfisvitund og frumkvöðlastarfi í sveitarfélaginu því menning er samofin samfélaginu og órjúfanlegur hluti þess. Þá vakti hún athygli á að úthlutun og veiting verðlauna er í samræmi við heimsmarkmið 3 heilsa- og vellíðan, 9 nýsköpun og uppbygging, 8 góð atvinna- og hagvöxtur og 13 aðgerðir í loftslagsmálum.

Menningarverðlaun 2022 fyrir árið 2021

Menningarverðlaun hafa verið veitt frá árinu 1994 og í ár bárust 4 tilnefningar til verðlaunanna. Fram kom í ræðu Kristjáns Sigurðar Guðnasonar formanns atvinnu- og menningarmálanefndar að hlutverk verðlaunanna er að veita hvatningu til handa listamönnum, fræðimönnum og áhrifavöldum fyrir verk sín. Það að vera tilnefndur er heiður og sönnun þess að verkin ykkar skipta okkur máli.
Tilnefndir voru:
Kef- Lavík- fyrir framlag þeirra til íslenskrar poppsenu, fyrir, ljóðræna, frumlega og stórbrotna texta.
Lind Draumland og Tim Junge – fyrir Gallerí MUUR þar sem þau hjón hafa sett upp fjölda listsýninga á heimili þeirra og opnað fyrir gesti og gangandi.
Hanna Dís Whitehead– fyrir starf hennar í þágu menningarmála á Hornafirði og fyrir framlag hennar til listar og hönnunar.
Þorkell Ragnar Grétarsson fyrir framlag hans til tónlistar og menningar í sveitarfélaginu.
Menningarverðlaun Hornafjarðar hlaut að þessu sinni Hanna Dís Whitehead fyrir starf hennar í þágu menningarmála á Hornafirði og fyrir framlag hennar til listar og hönnunar.
Verk Hönnu Dísar hafa vakið verðskuldaða eftirtekt og er hún eftirsóttur hönnuður víðs vegar um heim. Hanna hefur haldið sýningar í heimabyggð, Reykjavík og víða erlendis og komið fram í ótal viðtölum bæði í blöðum og sjónvarpi.
Hanna Dís hefur meðal annars unnið að fjölda sýninga og skipulagt listasmiðjur fyrir börn fyrir Menningarmiðstöð Hornafjarðar og Svavarssafnið en hún hefur sérstakan áhuga á að ýta undir listaáhuga barna.
Á árinu 2021 var Hanna á meðal hönnuða sem voru fengnir til að hanna vörur fyrir Listasafn Reykjavíkur – Ásmundarsafn. Í kjölfarið var hún með tvær sýningar á Hönnunarmars, einkasýningu í Norræna húsinu og samsýningu í Harbinger galleríinu. Þar á eftir tók hún þátt í samsýningu í Berg Gallerý, Stance-linear narratives. Í sumar var hún svo með opna vinnustofu í Miklagarði þar sem hún vann út frá munum af byggðasafninu að gerð flosteppa. Í lok sumars var haldin sýning, og var hún vel sótt. Stuttu seinna fór hluti af þessum teppum ásamt skúlptúrum á sýninguna Pottþétt fimm í fötum í Gallery Port. Í lok október 2021 fór af stað auglýsingaherferð Eyjólfs Pálssonar til að kynna fjölbreytileika íslenskrar hönnunar. Á stórum skjáum og strætóskýlum voru fjölmargar myndir settar í birtingu til að vekja athygli á málefninu. Verk úr vörulínu Hönnu Dísar Dialog, sem framleidd er á Hornafirði voru meðal þeirra sem valin voru í herferðina. Í lok árs 2021 hannaði hún jólaköttinn fyrir Rammagerðina en hann var innblásinn af norrænu jólaskrauti úr stráum og unnin úr höfrum úr Nesjum. Hún tók auk þess þátt í þremur jólasýningum í Reykjavík í Ásmundarsal, Listval og Gallery Port.
Hanna Dís er nú með opna samsýningu í Ásmundarsal sem ber nafnið “Í öðru húsi” svo fátt eitt sé nefnt sem Hanna Dís hefur tekið sér fyrir hendur á liðnu ári.

Atvinnu- og rannsóknarsjóður

Bjarni Ólafur Stefánsson fulltrúi atvinnu- og menningarmálanefndar afhenti styrki atvinnu- og rannsóknarsjóðs, fram kom í máli hans að í ár hafi nefndinni borist sex metnaðarfullar umsóknir í sjóðinn. Hljóðaði heildarupphæð umsóknanna upp á rúmar 7,5 miljónir en alls voru 2.4 milljónir króna til úthlutunar.
Einnig tók Bjarni Ólafur fram að meginhlutverk sjóðsins væri: „Að efla byggð og atvinnu í Sveitarfélaginu Hornafirði og er sjóðnum ætlað að veita styrki til verkefna sem lúta að atvinnuþróun, rannsóknum og nýsköpun í Sveitarfélaginu Hornafirði.“
Í ár var einni milljón úthlutað úr A-hluta og hlaut Sláturfélag Austur-Skaftafellssýslu styrkinn fyrir verkefnið „Sláturfélag Austur-Skaftafellssýslu Gæðahandbók vegna sláturhúss og matarsmiðju“
Úr B-hluta var úthlutað 1.4 milljónum. Náttúrustofa Suðausturlands hlaut tvo styrki, annars vegar fyrir verkefnið „Risadiskur í Hornafjarðarhöfn“ og hins vegar fyrir verkefnið „Tröllasmiður í Hornafirði“. Enn fremur hlaut „Fuglaathugunarstöð Suðausturlands“ styrk fyrir verkefnið „Skúmur í Austur-Skaftafellssýslu“ og Rannsóknarsetur Háskóla Íslands, Hornafirði fyrir verkefnið „Sjónræn gögn – skriðjöklar“.

Umhverfis-viðurkenningar

Sæmundur Helgason nefndarmaður í umhverfis- og skipulagsnefnd, veitti umhverfisviðurkenningar fyrir hönd nefndarinnar.
Tilgangur viðurkenninganna er að vekja íbúa sveitarfélagsins til umhugsunar um gildi náttúru og umhverfis fyrir samfélag og atvinnulíf og hvetja þá til að sýna því tilhlýðilega virðingu með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.
Í ár voru veittar viðurkenningar fyrir þrjá flokka: einstaklinga, fyrirtæki og lögbýli.
Í flokki einstaklinga hlutu þau Hulda Laxdal Hauksdóttir og Páll Róbert Matthíasson viðurkenningu fyrir snyrtilega lóð og sjálfbæra hugsun við Hafnarbraut 41 á Höfn. Þar er allur lífrænn úrgangur nýttur, annað hvort sem fóður fyrir hænurnar eða til moltugerðar. Hænsnaskíturinn er svo nýttur í beðin og grænmeti er ræktað þar á sjálfbæran hátt. Skúli Ingibergur Þórarinsson tók við viðurkenningunni fyrir þeirra hönd en Hulda var á námskeiði hjá Landbúnaðarháskóla Íslands að læra meira um vistvæna matjurtarrækt.
Í flokki fyrirtækja hlutu þau Jón Kristinn Jónsson og Sigurlaug Gissurardóttir, fyrir hönd Brunnhóls Gistiheimilis, viðurkenningu fyrir ötult starf í umhverfismálum og snyrtilegt umhverfi fyrirtækis. Á Brunnhól hefur verið rekin myndarleg ferðaþjónusta allt frá árinu 1986 og umhverfisvitund í hávegum höfð. Þau hafa til að mynda hlotið umhverfisvottun Vakans, voru meðal fyrstu aðila í sveitarfélaginu til að taka í notkun tveggja þrepa fráveitu og hafa flokkað allt sorp í um 30 ár. Þar að auki hafa eigendur fyrirtækisins unnið ötullega að bættu aðgengi að hinni miklu náttúrufegurð sem umlykur svæðið.
Í flokki lögbýla hlaut Ragnar Pétursson viðurkenningu fyrir snyrtilegt lögbýli og frumlega innsetningu á Þorgeirsstöðum í Lóni. Nálægt afleggjaranum að bænum er einfaldur rauður stóll sem hefur orðið að gríðarlega vinsælum áningarstað fyrir ferðalanga sem staldra við og njóta einstaklega fallegs útsýnis. Þá hefur Ragnar verið til fyrirmyndar í tengslum við rétt almennings til útivistar en við vegslóðann inn í Þorgeirsstaðadal er skilti sem á stendur „Not private road“ eða “Ekki einkavegur”. Slóðinn er því aðgengilegur öllum sem hafa áhuga á að fara um hann.
Sveitarfélagið Hornafjörður óskar viðurkenningarhöfum innilega til hamingju með árangurinn og hvetur íbúa sveitarfélagsins til að taka þau sér til fyrirmyndar, umhverfi og samfélagi til góðs. Jafnframt eru íbúar hvattir til að senda inn tilnefningar til umhverfisviðurkenninga fyrir árið 2022 í haust.

Menningarstyrkir, styrkir bæjarráðs og fræðslu- og tómstundanefndar

Alls bárust 10 umsóknir um menningarstyrki, og eru þeir veittir félagasamtökum og einstaklingum til menningartengdra verkefna. Fram kom í máli Kristjáns að með þessum styrkjum vilji nefndin hvetja og styrkja félagasamtök og einstaklinga til frekari starfa í þágu menningar.
Eftirtalin félagasamtök hlutu styrk að þessu sinni:
Blús og rokkklúbbur Hornafjarðar, Gleðigjafar, Samkór Hornafjarðar, Karlakórinn Jökull, Kvennakór Hornafjarðar, Leikfélag Hornafjarðar, Lúðrasveit Hornafjarðar. Hornfirska skemmtifélagið, Félag Harmonikkuunnenda og 785 FHM ehf.
Fræðslu og tómstundanefnd veitti styrki til barnarstarfs Hafnarkirkju og Skotveiðifélagsins.
Bæjarráð veitti styrki til Leikfélags Hornafjarðar fyrir götuleikhús, Vigdísar Maríu Borgarsdóttur fyrir Flugdag og Skógræktarfélag Austur- Skaftafellsýslu fyrir viðhald göngustíga og girðinga.

Athöfnin var hátíðleg að vanda hljómsveitin Lubbarnir fluttu vel valin lög í tilefni dagsins og hituðu upp fyrir blúshátíð sem haldin var um helgina.

Öllum styrk- og verðlaunahöfum er óskað til hamingju.