Harmljóð um hest

0
726

Hlynur Pálmason, mynd­listarmaður og kvikmynda­leikstjóri lærði ljósmyndun og kvikmyndagerð í Kaupmannahöfn en býr og starfar á Höfn í Hornafirði. Hlynur vinnur jöfnum höndum að myndlist og kvikmyndagerð. Í Svavarssafni sýnir hann seríu samtímaljósmynda sem hann hefur unnið að undanfarin ár samhliða kvikmyndagerð. Sýningarstjóri er Ástríður Magnúsdóttir. Sýningin er öllum opin og stendur til 15. maí 2022.
Ljósmyndaverkið Harmljóð um hest varpar sjónrænu og grafísku ljósi á rotnunarferli hests í síbreytilegri náttúru Íslands. Verkið er að sögn Hlyns sjónrænn sorgarsálmur, eins konar virðingarvottur til íslenska hestsins sem spilað hefur veigamikið hlutverk í mótun og sögu Íslands. Hlynur hefur lengi haft áhuga á að kanna hvernig umhverfið mótar okkur, hversu nátengd við erum náttúrunni og hvernig hún endurspeglar hugsanir okkar og tilfinningalíf. Í verkinu kannar Hlynur hið mannlega og hið náttúrulega, hvernig ólík blæbrigði veðráttu og tilfinninga birtast og breytast frá einni árstíð til annarrar, og hvernig andstæðir pólar eins og birta og myrkur, mýkt og harðneskja, fegurð og ljótleiki móta bæði náttúru og einstaklinga.

Hlynur Pálmason

Hlynur Pálmason er fæddur árið 1984 og ólst upp á Höfn í Hornafirði. Hann lærði ljósmyndun og kvikmyndagerð við Evrópska kvikmyndaskólann (2005-2006) og Den Danske Filmskole (2009-2013) í Kaupmannahöfn og bjó þar og starfaði í tólf ár. Hlynur hefur hlotið lof og verðlaun fyrir kvikmyndir sínar Vetrarbræður (2017) og Hvítur, hvítur dagur (2019). Árið 2018 flutti Hlynur ásamt eiginkonu sinni og börnum aftur til Hafnar og starfar þaðan að myndlist og kvikmyndagerð. Nýverið frumsýndi hann stuttmyndina NEST á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Berlín. Hlynur vinnur jöfnum höndum að myndlist og kvikmyndagerð. Í febrúar verður opnuð sýning á ljósmyndaverkum eftir Hlyn í Svavarssafni á Höfn. Hlynur er einnig að leggja lokahönd á nýja kvikmyndafurð í fullri lengd: Volaða Land sem til stendur að frumsýna í sumar.

Ástríður Magnúsdóttir (f. 1972) er sjálfstætt starfandi sýningarstjóri og kennari við Ljósmyndaskólann og Listnámsbraut Myndlistaskólans í Reykjavík. Ástríður lauk BA prófi í listasögu og listfræði frá Háskóla Íslands árið 2013 og BA gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2008. Ástríður hefur á undanförnum árum unnið að sýningum fyrir t.a.m. Listasafn Árnesinga: RÓSKA – Áhrif & andagift og Iðustreymi, og fyrir Hönnunarsafnið: Ertu tilbúin frú forseti og Á pappír, ásamt því að sinna kennslu, ritstörfum, rannsóknum og nefndarsetu á sviði menningar og lista. Áhuga- og rannsóknarsvið Ástríðar er femínísk listfræði og listasaga, saga ljósmyndarinnar sem miðils í myndlist og staða kvenna í listheiminum fyrr og nú.

Verið velkomin á opnun sýningarinnar Harmljóð um hest í Svavarssafni á Höfn í Hornafirði, laugardaginn 26. febrúar, kl. 16:00