Það er notalegt að finna samhug fólksins

0
485
Fulltrúar Hirðingjanna, karlakórsins og sóknarnefndarinnar

Í október sl. ritaði ég grein í Eystrahorn og útskýrði rekstrarvanda Hafnarsóknar sem stafar af skertum tekjum um 50% og svipað má segja um rekstrarumhverfi kirkjugarðanna. Í greininni var óskað eftir stuðningi og fjárframlögum almennings til að hægt væri að sinna allra nauðsynlegasta viðhaldi.
Rétt og skylt er að gera sóknarbörnum og öðrum grein fyrir árangri eftir birtingu greinarinnar og ánægjulegt að geta sagt frá jákvæðum viðtökum.
Eins og staðan er í dag hafa um 30 einstaklingar lagt inn á styrktarreikninginn um 700.000- kr., í misháum upphæðum eins og gengur og gerist, og þar af nokkrum rausnarlegum. Jafnframt hafa Hirðingjarnir fært kirkjunni hvorki meira né minna en 1.000.000- kr. styrk. Jólatónleikar karlakórsins voru með óhefðbundnu sniði fyrir jól og eingöngu sendir út á netinu. Fólki voru gefnir möguleikar á frjálsum framlögum í tengslum við tónleikana og ákvað karlakórinn að afhenda kirkjunni ágóðann, 138.000 kr.
Það er notalegt að finna að fólki er greinilega ekki sama um kirkjurnar okkar og þessi víðtæki stuðningur ber vitni um góðan hug íbúanna. Sama má segja um brottflutta Hornfirðinga sem lögðu verulegt framlag í söfnunina.
Áfram er hægt að styrkja sóknina með framlögum því styrktarreikningurinn er alltaf til staðar

(0172-05-061552 / kt. 590169-7309).

Sóknarnefndin færir öllum þeim sem styrkt hafa söfnuðinn fyrr og nú bestu þakkir og ítrekar að hver einasta króna kemur sér vel og fer í brýn og nauðsynleg verkefni.

Guð blessi ykkur.

F.h. Sóknarnefndar Hafnarsóknar
Albert Eymundsson