Hræðsluganga á Höfn

0
608
Við Óslandstjörn. Mynd: Guðrún Stefanía V. Ingólfsdóttir

Seinnipart föstudagsins 29. október, buðu landverðir á Höfn upp á hræðslugöngu í Óslandi. Alls mættu 27 hugrakkir þátttakendur til leiks og fengu að upplifa frásagnir fyrri tíma á sama tíma og rökkrið skall á, vindurinn blés og regnið féll.
Markmið ferðarinnar var að fagna myrkrinu og upplifa frásagnir fyrri tíma og bera þær saman við nútímann. Titillinn á göngunni er leikur að orðum þar sem hefðin er að landverðir bjóði uppá „fræðslugöngu“ en „hræðsluganga“ þótti við hæfi á þessum árstíma. Genginn var hringurinn í kringum Óslandstjörnina og tók gangan um eina klst. Þátttakendur voru vel búnir vasaljósum og luktum því þrátt fyrir að stutt væri í ljósin á Höfn þá er myrkrið fljótt að umlykja umhverfið þegar alskýjað er.
Margar sagnir um alls konar kynjaverur og drauga eru til frá fyrri tímum í Sveitarfélaginu Hornafirði. Landverðir sögðu frá óvættum í tjörnum, eins og nautinu í Þveitinni sem dregur húðina á eftir sér og nykrinum í Káravatni sem gerði tilraun til að fara með börnin fimm á Skálafelli ofan í vatnið. Fjörulallinn kíkti í heimsókn við fjöruborðið, sagt var frá hvíta stróknum sem kom upp í baðstofuna í Dilksnesi og eins var sögð saga úr Suðursveit hvar fjölkynngi réði um framgöngu Breiðamerkurjökuls.
Margir ungir þátttakendur voru með í för og því var endað á umfjöllun um að hræðsla væri ein af grunntilfinningum manneskjunnar og hluti af varnarviðbrögðum hennar. Börnin voru dugleg að koma með leiðir til að takast á við hræðsluna; ljós, mamma og pabbi, vinir og að tala um hvernig manni líður.
Landverðir þakka kærlega fyrir þátttökuna í myrkragöngunni og senda ljóskveðjur inn í veturinn sem framundan er.