Varðandi Valla rostung sem hefur heimsótt smábátahöfnina á Höfn á síðustu dögum og er hugsanlega nú þegar heimsfrægur af ferðalagi sínu víðsvegar um Evrópu eru nokkur atriði sem vert er að nefna.
Þrátt fyrir að Valli virðist rólegur og yfirvegaður er rétt að benda á að hann er a.m.k. 600 kg. villt dýr sem væntanlega er ekki vanur samskiptum við menn. Þó er hugsanlegt að Valli hafi sloppið úr einhverjum dýragarði og sé vanur og jafnvel sæki í fólk og mannvirki af þeim sökum. Enn sem komið er hefur ekkert komið fram í hegðun eða atgerfi Valla rostungs sem ótvírætt bendir til veikinda eða að dýrið sé í neyð. Hann gæti hreinlega hafa villst af sínum upprunaslóðum með ísjaka og sé af þeim sökum pínu ringlaður og ekki kunnugur staðháttum.
Við viljum vekja athygli á að af dýravelferðarsjónarmiðum er best að láta villt dýr vera í friði og óáreitt. Af hálfu sveitarfélagsins og lögreglu hefur verið reynt að passa upp á að Valli verði ekki fyrir óþarfa áreiti af fólki, til dæmis þeim sem fara of nálægt honum af þekkingarleysi. Sveitarfélagið vekur athygli á þeirri hættu sem getur stafað af villtum dýrum við mannfólkið. Um er að ræða þungt og kraftmikið dýr og því er mikilvægt að fólk haldi sér í hæfilegri fjarlægð. Þar að auki getur verið einhver smithætta á ýmsum smitsjúkdómum sem geta borist milli dýra og manna. Við hvetjum íbúa og gesti að koma fram við dýrið af virðingu.
Brynja Dögg Ingólfsdóttir
Umhverfis- og skipulagsstjóri Sveitarfélagsins Hornafjarðar