Þróun byggðar til framtíðar á Höfn

0
555

Hvað sérð þú fyrir þér?

Þegar fólk velur sér framtíðarhúsnæði er að mörgu að hyggja. Stærð, staðsetning, umhverfi og aðgengi að þjónustu skiptir þar máli. Þarfir okkar og framtíðarsýn eru mismunandi og því mikilvægt að sem flestir íbúar komi að umræðum um næstu skref í þróun íbúðarsvæða á Höfn.
Nú stendur Sveitarfélagið Hornafjörður frammi fyrir þeirri áskorun að framboð á lóðum fyrir íbúðarhúsnæði er orðið af skornum skammti. Uppbygging á síðustu árum og ásókn í lóðir hefur farið fram úr væntingum og mikilvægt að bregðast við. Hafin er vinna við deiliskipulagningu á Leirusvæði II og einnig hafa verið deiliskipulagðar lóðir í þéttingu byggðar í innbæ. Ljóst er að margir möguleikar eru í stöðunni hvort sem er fyrir þéttingu byggðar á Höfn eða uppbyggingu nýrra hverfa.
Sveitarfélagið Hornafjörður boðar því til íbúafundar þann 15. september n.k. kl. 17:00 í Nýheimum þar sem framtíðaríbúðabyggð og lausnir á lóðaframboði verða rædd. Kynnt verður samantekt um möguleika á svæðum til þéttingar byggðar og uppbyggingu nýrra hverfa og rætt um kosti og galla hvors fyrir sig. Fyrirkomulag fundarins verður svokallað heimskaffi og þannig gefst öllum tækifæri til þess að koma sínum skoðunum á framfæri.
Ég vil með þessum fáu orðum hvetja þig til þess að mæta, taka þátt í umræðunni og koma þínum skoðunum á framfæri. Þannig fáum við starfsmenn bæjarins og kjörnir fulltrúar sem besta yfirsýn yfir það hvar og hvernig við viljum koma fyrir íbúðarhúsnæði fyrir fjölskyldur framtíðarinnar á Höfn.

Með von um þína þátttöku

Brynja Dögg Ingólfsdóttir
Umhverfis- og skipulagsstjóri Sveitarfélagsins Hornafjarðar.