Israel Martin nýr þjálfari meistaraflokks karla

0
1013

Á sunnudag flaug Israel Martin til Hafnar og skrifaði undir þriggja ára samning við Körfuknattleiksdeild Sindra. Hann er þar með nýr þjálfari meistaraflokks karla ásamt því að vera yfirþjálfari yngri flokka og mun koma að þjálfun þeirra.
Israel er mikill hvalreki fyrir Körfuknattleiksdeildina og fyrir Höfn sem samfélag. Hann flytur hingað ásamt konu sinni Cristina Ferreira og tveimur sonum, sex og þriggja ára. Til gamans má geta að Cristina er fyrrum atvinnukona í blaki og spilaði meðal þeirra allra bestu í Evrópu um árabil. Israel kom fyrst til Íslands árið 2014 og var þá þjálfari Tindastóls í körfubolta á Sauðárkróki. Hann hefur þjálfað þrjú tímabil á Sauðárkróki þar sem hann skilaði liðinu í úrslit Íslandsmótsins 2015 og bikarmeistaratitli árið 2018. Þá var hann valinn þjálfari ársins í úrvalsdeildinni árið 2015.
Auk þess var hann eitt ár hjá danska stórveldinu Bakken Bears þar sem hann var danskur bikarmeistari, spilaði til úrslita um danska titilinn og var í kjölfarið valinn þjálfari ársins þar í landi. Síðustu tvö ár var hann þjálfari Hauka í Hafnarfirði ásamt því að vera landsliðsþjálfari U20 ára karla og er starfandi landsliðsþjálfari U18 ára karla.
Israel Martin og fjölskylda eru væntanleg til Hafnar í byrjun ágúst en Israel hefur nú þegar hafist handa við að setja saman liðið og munum við tilkynna nánar um þau mál um leið og ákvarðanir liggja fyrir.
Með ráðningunni teljum við félagið senda út skýr skilaboð um að það ætli að láta kné fylgja kviði eftir árangur síðasta árs. Ráðningin er merki um þann metnað sem stjórn félagsins vill að einkenni starfið og áður en langt um líður er ætlunin að Höfn í Hornafirði eigi lið í deild þeirra bestu. Við bjóðum Israel Martin hjartanlega velkominn til starfa og við hlökkum mikið til að halda áfram uppbyggingu á körfuboltabænum Höfn.
Áfram Sindri!