Fíflast og gellast í vernduðu umhverfi

0
517
Flottur hópur sem tók þátt í dansnámskeiðinu

Dansdrottningin Margrét Erla Maack var með danstíma í Sindrabæ um liðna helgi. “Íris Björk Óttarsdóttir, zumbafrumkvöðull hafði samband við mig á Facebook og hjálpaði mér að koma þessu af stað. Ég fékk svo styrk frá Sóknaráætlun Suðurlands.” segir Margrét. Boðið var upp á fimm tíma – Drag og vogue, rassahristur og twerk, magadans, Beyoncé og burlesque. “Þær sem sóttu námskeiðin voru í góðum tengslum við mjaðmirnar á sér. Stemningin var góð – þarna voru alls konar konur sem gáfu sér tíma fyrir sjálfar sig, til að fíflast og gellast í vernduðu umhverfi. Það er áhætta fólgin í að bjóða upp á svona danshelgi fjarri mínum heimahögum – sérstaklega núna þegar covidið gat sett strik í reikninginn á hvaða tímapunkti sem er. Ég er þakklát fyrir frábærar undirtektir. Breiður aldurshópur sótti tímana. Eldri konur sitja svo vel í sér – oft minni komplexar og meiri léttleiki, sem smitar út frá sér góðum fíling svo ég gat gert meira og öðruvísi en yfirleitt í svona tímum, svo bæði ég og nemendur fengum mikið út úr helginni. Covid-innilokunin hefur farið illa með skapið í mér og þessi útrás var kærkomin.”
Margrét kenndi einnig danstíma í framhaldsskólanum. “Við fórum í svona sambland af alls konar, lærðum hristur, dönsuðum við Lizzo og enduðum tímann á Bollywood. Ótrúlega skemmtilegur hópur.” Það var einnig á plani að kenna í félagsmiðstöðinni Þrykkjunni, en vegna reglna um utanaðkomandi kennara á covid-tímum var ekki hægt að verða við því. “Já, algjört svekk. EN! Það þýðir að ég einfaldlega þarf að koma aftur.”
Margrét stefnir á að koma aftur í sumar með danstíma og vera þá yfir lengri tíma. “Algjörlega – og bjóða upp á enn fleiri tíma, til dæmis Tinu Turner og Boyoncé – Beyoncé fyrir karlmenn. Svo skemmir ekki fyrir að fá að gista hjá Jóhanni Morávek og Kristínu Gests, einum skemmtilegustu hjónum landsins.”