Meistaraflokkur Sindra í körfubolta tók á móti Álftanesi í 1.deild karla í körfubolta föstudaginn 5. febrúar. Leikurinn var jafn og bauð upp á frábæra skemmtun fyrir körfuboltaáhugamenn. Ekki er leyfilegt að hafa áhorfendur á leikjum vegna sóttvarna en þeim er streymt á netinu í samstarfi við FAS og KPMG. Leikurinn var tvíframlengdur og náðu Sindramenn að landa sigri á lokasekúndum seinni framlengingar en það var Dallas Morgan sem skoraði glæsilega þriggjastiga körfu þegar staðan var 106 á móti 106 og tæplega 2 sekúndur voru eftir.
Lokasókn Álftanesmanna rann út í sandinn og fögnuðu okkar menn sigri 109 á móti 106. Glæsilegur sigur og er Sindri nú í 3. sæti í deildinni og gaman að sjá liðið í toppbarráttu. En sigurinn var ekki eina fagnaðarefnið þennan föstudag en Kaffi Hornið skrifaði undir nýjan 2 ára samning við körfuboltadeildina. Kaffi Hornið hefur verið dyggur stuðningsaðili við deildina síðan hún var endurvakin árið 2006. Kaffi Hornið hefur séð til að leikmenn fái daglega næringu og hafa myndað góða stemningu fyrir heimaleikjum með borgarafundunum.
Næsti heimaleikur verður mánudaginn 15. febrúar og hvetjum við alla Hornfirðinga að hvetja okkar menn og fylgjast með leiknum í streymi.
Myndirnar tók Þorvarður Árnason.