Svavarssafn kynnir myndlistarsýningu Katrínar Sigurðardóttur

0
670
Jarðverk Katrínar við Hoffellsá

Myndlistarkonan Katrín Sigurðardóttir sýnir verkið Til Staðar í Svavarssafni. Í verkinu hefur Katrín unnið með þær sérstöku aðstæður sem skapast hafa á Íslandi vegna heimsfaraldursins og beint sjónum að því frábæra listsköpunarefni sem er landið sjálft.
Til Staðar eru þrjár innsetningar í náttúru Íslands og heimildir í formi ljósmynda og myndbands. Hin staðbundnu verk voru unnin á afviknum stöðum í þremur landsfjórðungum. Við Hoffell undir Vatnajökli, á Skarðsströnd við Breiðafjörð og í Svalbarðshreppi í Norður-Þingeyjarsýslu. Hugmyndin að baki verkinu tengist samspili hráefnis sem staðsetningar, mannlegs inngrips og ferlum náttúrunnar sjálfrar.
Katrín Sigurðardóttir hefur á 30 ára ferli sýnt skúlptúra, teikningar, ljósmyndaverk og stórar innsetningar sem umbreyta reynslu og upplifun áhorfandans. Undanfarin ár hefur hún unnið með efnislega frumferla jarðarinnar í verkum sínum. Katrín hefur átt mikilli velgengni að fagna innan listheimsins og verk hennar verið sýnd hér heima og víða erlendis en hún hefur m.a. verið fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum, Sao Paulo Tvíæringnum í Brasilíu, Momentum í Noregi og Rabat tvíæringnum í Marokkó. Einkasýning hennar í Metropolitan safninu í New York borg árið 2010 vakti mikla athygli.

Katrín Sigurðardóttir. Myndin er birt með leyfi listakonunnar og Sao Paulo Tvíæringsins

Sýningin hefst í Svavarssafni þriðjudaginn 2. febrúar 2021 en þar sem veraldlegar aðstæður bjóða ekki upp á samkomuhald verður ekki formleg opnun á sýninguna. Þess í stað býður Katrín gestum í samtal um verkið sama dag kl.17:00. Aðeins mjög takmarkaður fjöldi gesta kemst að vegna samkomu­takmarkana og ýtrustu sóttvarna verður gætt. Áhugasamir eru vinsamlega beðnir að hafa samband við sýningastjóra, Auði Mikaelsdóttur, í síma 845-4404 og skrá sig eða senda tölvupóst á audur@hornafjordur.is. Listamannaspjallinu verður streymt beint á síðu Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar á YouTube
https://youtu.be/Lzf8YBDmAlM og hvetjum við alla til að fylgjast með áhugaverðri umfjöllun um myndlist.
Sýningin mun standa til 5. maí 2021 og eru allir hjartanlega velkomnir í safnið!