Sigrún Ólafsdóttir fæddist í Reykjavík 16. maí 1974, dóttir Svövu Kristbjargar Guðmundsdóttur og Ólafs Þ. Harðarsonar. Eystrahorn heyrði í Sigrún og fékk að forvitnast aðeins um æskuna á Höfn, jólahefðir og annað sem hefur á daga hennar drifið.
“Ég ólst upp á Hornafirði hjá móður minni og í nánu samneyti við ömmu mína og afa, þau Sigrúnu Eiríksdóttur og Guðmund Jónsson. Æskuárin voru mjög hefðbundin, við móðir mín bjuggum á Dvergasteini (Bogaslóð 12) í sama húsi og afi og amma þangað til ég var sjö ára, en fluttum þá á Silfurbraut 10, en á þeim tíma fannst mér afar langt þar á milli. Ég hafði alltaf mjög gaman af því að vera í skólanum og var 10 ára þegar ég ákvað að ég ætlaði að fara í Menntaskólann við Sund þegar sá tími rynni upp. Ég eyddi miklum tíma með afa en sérstaklega ömmu, sem að sá um allt bókhald og umsýslu fyrir Trésmiðju Hornafjarðar sem afi rak. Einnig voru þau afi og amma mikið í hestum og fékk ég að vera með þeim, við fórum yfirleitt tvisvar á dag inn í hesthús að gefa hestunum og svo var auðvitað skemmtilegast að fara á hestbak.”
Jólin
“Jólin okkar voru einnig frekar hefðbundin og framan af fannst mér að þau yrðu alltaf að vera eins. Amma söng í kirkjukórnum, þannig að jólin byrjuðu á messu á aðfangadag klukkan sex, þar sem ég hef frétt að ég hafi verið til vandræða sem lítið barn þar sem ég vildi frekar horfa aftur í kirkjuna á ömmu að syngja (en þá var kórinn á svölunum), heldur en prestinn messa. Eftir messuna þá biðu rjúpurnar heima hjá afa og ömmu og var biðin eftir að fá að opna pakkana oft nokkuð löng. Vinsælasta jólagjöfin voru bækur og held ég að ég hafi oftast fengið 10-20, en kvartaði nú víst ein jólin sem barn að hafa bara ekki fengið neitt dót. En það var nú kannski bara sjálfri mér að kenna, þar sem ég bað almennt ekki um neitt annað í jólagjöf. Eftir matinn og opnun pakkana komu þau Ásta, Gaui og Helga Rún til okkar og liðu jólin svo í jólaboðum með fjölskyldunni og heimsóknum til náinna vina. Það er erfitt að hugsa um einhverja eina eftirlætisjólaminningu, þar sem jólin voru bara notaleg og nákvæmlega eins og ég vildi hafa þau með fjölskyldunni. Ég var þó einu sinni í Reykjavík hjá föðurfjölskyldunni á jólunum og tvisvar í Bandaríkjunum, og sú reynsla gerði mig aðeins frjálslyndari varðandi það að hlutirnir þyrftu ekki alltaf að vera eins og allt í lagi að breyta út af vananum. Fyrstu jólin sem ég var erlendis fór ég með vini mínum, Jason Beckfield, til Joplin sem er í Missouri og þar borðuðum við mexíkóskan mat og opnuðum pakkana á hádegi á aðfangadag. Það passaði auðvitað við tímann á jólunum heima og það var óneitanlega skrítið að tala við fjölskylduna úr fjarlægð, en lét mig líka sjá að það sem skiptir máli er gæðatími með fjölskyldu og ástvinum, hvort sem hann er í desember, maí eða september.”
Á námsbraut
“Ég var 17 ára þegar ég fluttist til Reykjavíkur og fór í Menntaskólann við Sund. Þaðan lá leiðin í Háskóla Íslands þar sem ég lærði félagsfræði og þegar ég var 25 ára flutti ég til Bandaríkjanna og hóf doktorsnám í félagsfræði við Indiana háskólann sem er í Bloomington. Það er afar fallegur og hefðbundinn háskólabær og leið mér mjög vel þar í 8 ár, eignaðist frábæra vini og var með einstaka leiðbeinendur. Frá því að ég var lítil, þá var það að vera í skóla eitt það skemmtilegasta sem ég gerði og því fannst mér gott að gera það bara sem lengst. Það sem átti stærstan hlut í að ég færi til Bandaríkjanna voru kennarar mínir í félagsfræði í HÍ og þá sérstaklega Þórólfur Þórlindsson sem leiðbeindi mér við skrif BA-ritgerðar minnar. Hann lagði mikla áherslu á gæði doktorsnáms í Bandaríkjunum og var sannfærður um að Indiana skólinn væri réttur fyrir mig. Það kom heldur betur á daginn, og vann ég sérstaklega náið með leiðbeinanda mínum, Bernice Pescosolido, sem hefur einmitt nokkrum sinnum komið til Íslands og fyrir COVID-19 fórum við alltaf í a.m.k. eina ferð saman á ári þar sem við blönduðum saman vinnu og skemmtun. Það eru einmitt hún og fyrrnefndur Jason sem eru enn nánasta samstarfsfólk mitt í Bandaríkjunum og nú fyrir jólin kom út sérhefti í einu virtasta tímariti í heilsufélagsfræði sem við Jason ritstýrðum, en það fjallar um ójöfnuð í heilsu í alþjóðlegu samhengi. “
Þegar ég fór út þá hafði ég engar væntingar um að vinna í akademíu eða verða prófessor, en sá stuðningur og hvatning sem ég fékk í Indiana sýndi mér að þetta er einmitt rétti starfsvettvangurinn fyrir mig. Ég var hvött til að fara á atvinnumarkaðinn í Bandaríkjunum og ákvað ég að sjá hvernig það gengi. Þar er mikil samkeppni um stöður og sennilega 100-200 umsóknir um stöðu í bestu skólunum, en eftir langt umsóknarferli þá var mér boðin staða við Boston háskólann. Þar var ég í 8 ár og fékk meðal annars æviráðningu, en það er ferli sem tekur um það bil ár og allt varðandi þinn akademíska feril er metið, og þá ákveður skólinn hvort þeir vilji halda þér eða þú hreinlega missir vinnuna. Þannig að þetta er mjög streituvaldandi ferli og að því loknu fékk ég rannsóknarleyfi í eitt ár þar sem ég dvaldi í Evrópu, og það lét mig svolítið fara að spyrja spurninga um hvað ég vildi í lífinu og hvað skipti máli og að lokum gerði ég mér ljóst að það eina rétta var að koma heim til Íslands. Ég var síðan svo heppin að fá stöðu við Háskóla Íslands og fór í flýtiframgang í prófessor og hóf störf sem prófessor í félagsfræði við HÍ haustið 2016.
Komin heim
Það hefur í einu orði sagt verið dásamlegt að flytja heim og hefja störf við Háskólann. Þó mikið sé að gera er það að mörgu leyti mun meira gefandi en starfið í Bandaríkjunum og í svona litlu samfélagi eru alls konar tækifæri sem bjóðast. Auðvitað er starfið það sama að mörgu leyti: kennsla, rannsóknir og stjórnun, en það bætist við að geta haft áhrif í samfélaginu. Því tengt höfum við til dæmis verið með hlaðvarpsþátt, Samtal við Samfélagið, þar sem málefni líðandi stundar eru greind út frá félagsfræðinni. Einnig hef ég komið að vinnu fyrir bæði Heilbrigðis- og Velferðarráðuneytið, og sit núna í sérfræðingahóp á vegum ASÍ sem greinir efnahagslegar afleiðingar kófsins og hvernig bregðast má við þeim til að lágmarka áhrif á velsæld þjóðarinnar. Auk þess að starfið er mjög gefandi, þá er auðvitað dásamlegt að vera komin nær fjölskyldu og vinum (þó að ég eigi auðvitað líka mína bandarísku og reyndar þýsku fjölskyldu) og að fá að lifa og starfa í þessu einstaka landi. Þegar ég var að velta fyrir mér að flytja heim tók ég eftir því að ég var farin að sakna náttúrunnar mjög mikið og hefur hún orðið mér mikilvægari og mikilvægari eftir því sem ég eldist og hef ég tekið upp á því að ganga á fjöll við sem flest tækifæri. Enda er það fátt sem er skemmtilegra en að hugsa um félagsfræði á fjalli, nema þá kannski að ræða hana og önnur málefni við góðan ferðafélaga.