Hver þekkir bæjarheitin Butra eða Hellar? Líklega kannast fáir þeirra sem yngri eru við þau en margir af eldri kynslóðum Austur-Skaftfellinga hafa heyrt þeirra getið. Í Sveitarfélaginu Hornafirði eru mikil og merk ummerki um horfna byggð frá liðnum öldum. Ummerkin eru ýmsar tegundir jarðlægra minja, m.a. tóftir bæjarhúsa og annarra mannvirkja tengdum þeim. Þau eru vitnisburður um búsetu og mannlíf á umræddu svæði. Talið er að fjöldi slíkra bæjarminja í sveitarfélaginu sé allt að 100 talsins. Mörg eru langt utan alfararleiðar og því er vitneskjan um tilurð og umfang þeirra ekki mörgum ljós.
Fyrr á árinu hófu Menningarmiðstöð Hornafjarðar og Þórbergssetur samstarf um skráningu hinna fornu býla, með að markmiði að vernda landfræðilega og sögulega þekkingu á búsetuminjum, og gera byggðasögu Austur-Skaftafellssýslu sýnilega. Á síðustu öldum bjuggu margir við aðstæður sem myndu þykja mjög óvenjulegar í samanburði við núverandi búsetuhætti. Fjölskyldur flæmdust á milli staða vegna ágangs jökla, jökulvatna, jökulhlaupa og annarra náttúruhamfara. Erfiðar aðstæður urðu til þess að fjölmörg býli og hjáleigur fóru í eyði.
Svarið við spurningunni hér í byrjun er að Butra og Hellar voru hjáleigur í landi Kálfafellsstaðar í Suðursveit. Búsetusaga þeirra er ekki að fullu kunn vegna óljósra heimilda en spannar fyrir víst tæp 200 ár. Hjáleigurnar voru farnar úr ábúð um miðja 19. öld eða fyrir allt að 170 árum síðan. Butra stóð sunnan undir Butruklettum, suðaustur frá Kálfafellsstað. Ekki er vitað um ábúendur í Butru fyrr en 1735 en í Jarðabók Ísleifs sýslumanns Einarssonar frá 1708-1709 er Butra þá sögð í eyði síðustu 19 árin. Það staðfestir að búseta þar var hafin a.m.k. á 17. öld. Samfelld byggð var í Butru frá 1735 og fram til 1850. Meðal ábúenda á 19. öld voru hjónin Ingimundur Þorsteinsson og Helga Bjarnadóttir. Síðustu ábúendur voru feðgarnir Þorvarður Stefánsson og Steinn Þorvarðsson sem komu frá Hellum árið 1845. Þorvarður dó að Butru en Steinn flutti þaðan að Borgarhöfn árið 1849. Þar með lauk búsetusögu Butru og var hjáleigan lögð í eyði ári seinna.
Um 500 metrum suðaustan við Butrukletta eru Hellaklettar og sunnan undir þeim var hjáleigan Hellar. Hennar er getið í Jarðabók Ísleifs Einarssonar sem ein af fimm hjáleigum Kálfafellsstaðar. Þær voru auk Butru og Hella, Svíri, Leiti og Brunnar. Um tíma var tvíbýli í Hellum en engar lýsingar eru um hvar það býli stóð í Hellalandinu. Elstu heimildir um búsetu í Hellum eru frá 1703 en ekki er hægt að útiloka að hún hafi hafist mun fyrr en það. Samfelld var hún frá árinu 1785 til ársins 1864. Síðasti ábúandinn var Steinn Þorvarðsson, sem kom aftur úr Borgarhöfn að Hellum og bjó þar síðustu tíu árin sem Hellar voru í byggð. Eftir það var Hellulandið og mannvirkin nýtt frá Kálfafellsstað.
Á þeim tíma sem búið var í þessum hjáleigum voru búskaparhættir á Íslandi með allt öðrum brag en í dag. Húsakynnin voru torfbæir og baðstofan kynnt upp með ylnum frá kúnni sem stóð á bási sínum undir baðstofugólfinu. Hesturinn var megin aflgjafinn við erfiðisvinnu hjá bændum enda dráttavélar ekki komnar til sögunnar. Fjárhús voru lítil ef einhver voru en fjárborgir og fjárskjól algengari. Á sama tíma var veðráttan kaldari og jöklar í framrás, ekkert rafmagn og Ísland hafði ekki öðlast sjálfstæði. Læknisaðstoð var takmörkuð og barnadauði algengur.
Heimsókn í Butru
Það er gaman að rölta fram á Butruklettana og að fornum rústum sem eru þar undir. Húsaskipan í Butru er óþekkt, tóftirnar austast undir klettunum virðast vera gamlar og erfitt að átta sig á hlutverki þeirra. Fjárrétt var byggð ofan í bæjartóftina og hún því afmynduð og ekki hægt að átta sig á húsagerð eða bæjarskipan. Það hefði vafalaust verið lærdómsríkt að mæta Ingimundi Þorsteinssyni (1794 – 1846) og konu hans Helgu Bjarnadóttur (1799 – 1849) á hlaðinu í Butru, í þann mund er þau voru að flytja þaðan burt um 1841, eftir þriggja ára búsetu. Þar yrðum við vitni að þungum örlögum þeirra og um leið rækilega minnt á strit forfeðranna, háð við erfiðar aðstæður og stundum náttúruhamfarir.
Ingimundur bóndi hafði þá þegar búið á átta stöðum. Hann fæddist á Kálfafelli, ólst upp í Borgarhöfn, var vinnumaður á Felli, síðan bóndi í Fljótshverfi, á Hofi í Öræfum og Steinum í Suðursveit, en flúði þaðan er grjót hrapaði á bæinn. Byggði upp bæ á Sléttaleiti, bjó síðar á Reynivöllum en flutti í Butru 1838. Hann var bóndi á Skálafelli 1845 (sbr. kirkjubók) og lést úr mislingum í Svínafelli í Öræfum, 51 árs að aldri. Helga kona hans var ein af 11 Skaftafellssystrum og fylgdi hún Ingimundi frá Felli eftir að þau giftust vorið 1820. Hún dó þremur árum eftir lát Ingimundar, þá skráð 49 ára að aldri.
Áður en Ingimundur og Helga fluttu í Butru höfðu þau eignast sex börn, þar á meðal Sigurð, síðar sýslunefndarmaður og hreppstjóri í Öræfum, -forfaðir Kvískerjasystkina. Hann fæddist í óveðri undir steini í hlíðum Steinafjalls örlaganóttina 7. júlí 1829. Eftir þá nótt lagðist byggð í Steinum niður. Þau misstu fimm ára gamla dóttur, Ingunni á meðan þau bjuggu á Reynivöllum. Ógæfan hélt áfram að fylgja fjölskyldunni en soninn Bjarna misstu þau 11 ára gamlan, á fyrsta búskaparári í Butru. Guðný dóttir þeirra lést ári síðar 14 ára gömul. Rétt fjórum mánuðum seinna fæddist þeim drengur en hann dó tæplega ársgamall sumarið 1840. Kirkjubækur bera vitni um mikinn barnadauða um alla sveit á þessum tíma. Algeng skýring á dauða barna var innvortis mein en erfitt er að ráða í hvað það þýðir. Vafalítið réð fátækt, skortur á hreinlæti og slæmur aðbúnaður miklu. Vatnslindir voru misjafnar á bæjum, ýmist brunnar eða vatn tekið úr opnum vatnsbólum eða lækjum þar sem búfénaður gekk líka um. Í ljósi þessa barnadauða í Butru leituðum við eftir hvar neysluvatn fékkst, en urðum einskis vísari.
Þetta eru dæmi um sögur liðinna tíma og horfinna býla í sveitum Austur-Skaftafellssýslu en oft er ekkert eftir af sögunni nema tóftirnar. Íslenskar fornleifar eru að jafnaði ekki rismiklar og falla oft vel inn í landslagið en sumar eru mjög greinilegar og sjást langt að. Flestar minjar eru gerðar úr torfi og grjóti og ásýnd þeirra breytist á hundruðum ára. Á meðan sum mannvirkin eyðast og hverfa fyrir tilstilli náttúruaflanna, varðveitast önnur merkilega vel.
Í Hellum
Lítið er vitað um minjarnar undir Hellaklettum og búsetuform þar. Bæjarhúsin voru á skjólgóðum stað undir klettunum, tóftir þeirra þekkjast af því að vera stærstar þarna. Ofan í bæjartóftirnar voru einnig byggð fjárhús eða sauðahús með hlöðu eftir að búsetu lauk, líkt og í Butru og nytjuð frá Kálfafellsstað. Meðfram Hellaklettum liggja þrír myndarlega hlaðnir torfgarðar og er stutt á milli þeirra. Tóft með breiðum veggjum er þvers á milli fremri garðanna og virðist hafa verið þaklaus. Innsti garðurinn er líklega túngarður en hann liggur vestur fyrir tóftina af bæjarhúsunum. Hinir garðarnir eru styttri og liggja samhliða honum með 2 – 4 metra millibili. Engar heimildir finnast um þessa garða en hugsanlegt er að sá fremsti sé fiskigarður. Á honum hafi afli úr sjóróðrum frá Bjarnahraunssandi verið þurrkaður. Ef til vill er tóftin milli garðanna eitthvað tengd því?
Hafa þarf í huga þegar fornar tóftir eru kannaðar að fá hús á 18. og 19. öld hýstu búpening. Fjárhús þekktust ekki en sauðfé hafðist við í fjárborgum, skjólum eða hellum sem hlaðið var fyrir. Þó munu lambhús hafa verið heima við bæi. Suður af Hellaklettunum eru Sauðhúsatóftir sem voru fjárborgir eða sauðahús frá Kálfafellsstað. Þær eru dæmi um hlaðnar fjárborgir úr torfi sem ætlað var að skýla útigangsfé í hörðum veðrum. Slíkar borgir og fjárskjól finnast í öllu byggðarlaginu og eru margar ævafornar og því afar merkar minjar. Frá Hellaklettum og að borgunum hafa verið hlaðnar vörður úr torfi til að beina sauðamönnum rétta leið til gegninga í dimmum vetrarveðrum. Liggur tvöföld röð af slíkum vörðum niður úr Hellalandinu.
Frá 1703 bjuggu í Hellum fátækir leiguliðar Kálfafellsstaðar, við þröngan kost og frumstæð húsakynni. Tvíbýli var þar 1831 til 1857 en ekki þó samfellt. Hugsanlegt er að gömul tóft á lækjarbakkanum rétt sunnan Hellakletta hafi verið smábýli, þar eru ummerki um garð framan við tóftina sem getur verið merki um bæ frekar en útihús.
Áframhald skráningar
Samstarf Menningarmiðstöðvar og Þórbergsseturs byggist á að skrá þessi fornu býli með ítarlegum hætti. Í maí 2020 hófst undirbúningur og vettvangsvinna. Vegna umfangs verkefnisins er skráningu skipt í fimm hluta, eftir sveitum héraðsins. Byrjað var að skrá og ljósmynda öll forn býli í Suðursveit síðastliðið vor. Allar jarðlægar minjar sem heyra undir hvert býli, eru leitaðar uppi, mældar með staðsetningartæki, ljósmyndaðar og skráðar. Tóftum, garðlögum og öðrum mannvirkjum er lýst. Skráningu er nánast lokið í Suðursveit og á nýju ári verður haldið áfram að skrá í sveitarfélaginu.
Yfir verkefninu eru Sigríður Guðný Björgvinsdóttir, landfræðingur hjá Menningarmiðstöð Hornafjarðar, Þorbjörg Arnórsdóttir og Fjölnir Torfason frá Þórbergssetri. Þeim til aðstoðar hafa verið Anna Soffía Ingólfsdóttir fornleifafræðinemi, Kristinn Fjölnisson og Heiðar Sigurðsson. Verkefnið verður kynnt almenningi á vormánuðum 2021 með ljósmyndasýningu ásamt opnun á nýrri vefsíðu. Hvetjum við alla sem hafa áhuga eða upplýsingar um forn bæjarstæði í sveitarfélaginu til að hafa samband, við Sigríði á Menningarmiðstöð eða Þorbjörgu á Þórbergssetri. Allar upplýsingar eru mikilvægt framlag í skráningu af þessu tagi.
Sigríður Guðný Björgvinsdóttir, Menningarmiðstöð Hornafjarðar
Þorbjörg Arnórsdóttir, Þórbergssetur, Hala í Suðursveit