Fréttir af sunddeildinni

0
594

Núna höfum við í sund- og frjálsíþróttadeild Sindra tekið höndum saman og ráðið til okkar fagmenntaðan þjálfara sem heitir Mariano Ferreyra. Báðar þessar deildir hafa átt erfitt með að finna þjálfara síðustu ár og hafa verið ör þjálfaraskipti þar sem þetta hefur verið lítið starfshlutfall og óheppilegur vinnutími til að púsla með annarri vinnu.
En með samstarfi tókst þessum deildum að laða hingað þjálfara sem við vonum að verði hérna hjá okkur til lengri tíma og ná þannig samfellu í starfið hjá okkur.
Í sunddeildinni hafa verið um það bil 20- 30 iðkendur á ári og hefur 3. til 6. bekkur yfirleitt verið fjölmennastur. Núna er aftur á móti gróska í yngri flokka starfinu og stefnir í að yfir 20 iðkendur frá 1. og 2. bekk verði að æfa hjá okkur í vetur. Erum við núna að sjá fram á vera með yfir 30 iðkendur á komandi vetri.
Ásamt æfingum fyrir krakka hefur sunddeildin boðið upp á Garpa æfingar fyrir 18 ára og eldri. Nú verður einnig boðið upp á æfingar fyrir þríþraut og bjóðum við allar Járn konur og karla velkomna til okkar á æfingar. Sunddeildin hefur einnig verið að bjóða upp á stutt skriðsundsnámskeið að vetri fyrir fullorðna. Ekki má gleyma að minnast á æfingabúðirnar sem við höfum haldið reglulega í febrúar og einu sinni á vetri höfum við fengið til liðs við okkur þjálfara frá öðrum félögum bæði til að öðlast reynsluna og ná góðri tengingu við önnur félög.
Við bjóðum allt sundfólk velkomið að æfa hjá okkur.