Vegna fyrirhugaðrar útgáfu á endurminningum Guðjóns R. Sigurðssonar

0
1240
Guðjóni fyrir framan kofann sinn

Dagana 19.-21. september næstkomandi verð ég við heimildaöflun í Austur-Skaftafellssýslu í tengslum við endurminningar Guðjóns R. Sigurðssonar. Óska eftir ljósmyndum, munum og pappírum sem tengjast Guðjóni með einum eða öðrum hætti.
Ég hef sérstakan augastað á ljósmyndum frá árum hans í Kanada.

Ég verð með fasta viðveru sem hér segir:

  • Þórbergssetri sunnudaginn 20.september frá kl.10:00-16:00
  • Bókasafni Hornafjarðar 21. og 22. september frá kl. 9:00-16:00

Guðjón R. Sigurðsson fæddist að Hömrum í Mýrarhreppi í Austur-Skaftafellssýslu 26. apríl 1903. Foreldrar hans voru hjónin Runólfur Sigurðsson frá Svínafelli í Öræfum og Steinunn Jónsdóttir frá Odda á Mýrum. Þegar Guðjón var tveggja vikna gamall fluttu þau ásamt þremur börnum sínum til Kanada í leit að betri lífskjörum. Guðjón varð hinsvegar eftir, fyrst hjá ömmu sinni og afa, Guðnýju Benediktsdóttur og Jóni Bjarnasyni, en síðan ólst hann að mestu leyti upp hjá Ingunni, móðursystur sinni, og manni hennar, Einari Þorvarðarsyni á Brunnhól í Mýrum. Móðir hans lést ári eftir vesturförina. Þegar Guðjón var rúmlega tvítugur barst honum bréf frá föður sínum þar sem hann fór þess á leit við Guðjón að hann færi vestur. Að lokinni vorvertíð á Höfn árið 1924 fékk hann hest hjá frænda sínum á Mýrum og bjóst af stað í Ameríkuferð með aleiguna í hnakktösku. Hann fór ríðandi til Víkur í Mýrdal en gekk þaðan síðasta spölinn til Reykjavíkur.
Eftir að hann kom til Kanada dvaldi hann um tíma hjá föður sínum, en staldraði stutt við. Fór hann von bráðar að leita fyrir sér um atvinnu annars staðar og varð starfsemi hans mjög fjölbreytt þar vestra. Guðjón bjó í Kanada í 37 ár, frá 1924 til 1961, og gerir hann þeim tíma rækileg skil í enduminningum sínum.
Með von um jákvæð viðbrögð,

Þórður Sævar Jónsson
S:663-1306