Blaðamaður fór og hitti hljómsveitina ADHD í Hafnarkirkju síðastliðinn laugardag en hún var þar við upptökur á sinni áttundu plötu.
Hljómsveitin ADHD er vel kunnug í jazz heiminum og hefur hlotið verðskuldaða athygli fyrir tónlist sína. ADHD á rætur að rekja til Hornafjarðar, en bræðurnir Ómar og Óskar Guðjónssynir eru ættaðir héðan og hafa eytt töluverðum tíma hérna þótt þeir séu ekki fæddir og uppaldir hér. Tilurð hljómsveitarinnar er hægt að rekja til blúshátíðar á Hornafirði árið 2008. Þeir bræður settu saman hljómsveitina til að koma fram á hátíðinni, aðrir meðlimir eru Tómas Jónsson hljómborðsleikari og Magnús Trygvason Eliassen trommari.
Prógrammið var tvískipt, frumsamið efni og svo jazz og blús standardar. “Ég vissi það í öðru lagi á þessum tónleikum að þetta væri hljómsveit sem gæti spilað hvar sem er í heiminnum” sagði Óskar þegar hann var spurður út í upphafið á hljómsveitinni. Þeir gáfu svo út sína fyrstu plötu árið 2009 og unnu verðlaun sem besta jazz platan á Íslensku tónlistarverðlaununum það ár. Síðan þá hafa þeir spilað um allan heim þó mest í Evrópu. “Í fyrsta tónleikaferðalaginu okkar um Evrópu varð til ákveðið bræðralag sem við höfðum tekið okkur tíma í að halda utan um. Við erum enn að nota sama bílstjórann þegar við erum í Evrópu, hann Jörg. Þessi samvera breytti sambandi okkar, það varð nánara og samspilið miklu dýpra” segja bræðurnir.
Aðspurðir afhverju þeir hefðu valið Hafnarkirkju sem upptökustað segja þeir að það sé nauðsynlegt að getað farið og lokað sig af í upptökuferlinu. “Maður þarf að vera á stað þar sem enginn getur skotist í burtu í 2 daga” segir Tómas. “Það var alltaf planið að koma hingað á Höfn og taka upp, búið var að ákveða þetta í október í fyrra þannig Covid hafði ekkert með þetta gera” segja strákarnir. “Við bræður spiluðum hérna við jarðarför ömmu okkar, hennar Lukku, þannig við vissum að hvaða hljómburði við gengum.” segir Óskar. Þeir vilja meina að rýmið skipti miklu máli í þeirra tónlist og hafi mikil áhrif á hvernig samspil hljóm_sveitarinnar verður. “Þannig eru aldrei neinir tónleikar eins”.
Ferlið er mjög mismunandi hjá þeim hvernig lögin verða til og eru tekin upp, en þeirra tónlist er öll tekin upp lifandi. Sum lögin þróast mikið í upptökuferlinu en önnur verða til án mikillar áreynslu. “Það skiptir miklu að niðurstaðan sé góð og að allir séu sáttir við sinn part. Oft snýst þetta um að ná sem bestri töku.” segir Ómar.
Framundan hjá hljómsveitinni er Evróputúr í nóvember og Iceland Airwaves tónlistarhátíðin ef aðstæður í heiminum leyfa.
Og hvað á nýja platan að heita ?
“Ég held að við værum að svíkja sjálfa okkur ef við kölluðum þessa plötu ekki 8” segir Ómar.