Það er óhætt að segja að uppátæki Kvennakórs Hornafjarðar hafi vakið athygli undanfarna mánuði, ekki bara á Hornafirði heldur landinu öllu. Í stað þess að leggja árar í bát á þessum fordæmalausu tímum sóttu konur í sig veðrið og framkvæmdu ótrúlegustu hluti undir styrkri stjórn Heiðars Sigurðssonar kórstjóra. Kórinn gaf út þrjú tónlistarmyndbönd, keyrði um Höfn á risastórum vörubílspalli og hélt útitónleika og nú síðast söng kórinn á öllum einbreiðum brúm í sýslunni! Það eru 36 einbreiðar brýr á landinu öllu, í Austur – Skaftafellssýslu eru 18 einbreiðar brýr og því hefur kórinn sungið á helmingnum af öllum einbreiðum brúm á Íslandi sem hlýtur að teljast töluvert afrek. Markmiðið með brúarsöngnum var að vekja athygli á þessu málefni á menningarlegan hátt og er óhætt að segja að vel hafi tekist til. Auglýsingar voru sendar í Eystrahorn og alla helstu fréttamiðla landsins. Tekin voru viðtöl við kórinn, bæði fyrir útvarp og sjónvarp og einnig vakti tiltækið mikla athygli á samfélagsmiðlum. Fulltrúi frá vegagerðinni fylgdi hópnum frá upphafi til enda og samgönguráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, kallaði þetta frábært framtak hjá kórnum og óskaði honum góðs gengis.
Kórinn hefur fundið fyrir miklum hlýhug og stuðningi og það er gaman að geta þess að alls komu 193 „tónleikagestir“ að hlusta á brúarsönginn víðs vegar á leiðinni. Einnig hlaut kórinn höfðinglegar móttökur við bráðabirgðabrúna yfir Steinavötn hjá Mikael ehf sem bauð kórnum í kaffi og kökur og ekki voru móttökurnar síðri hjá Lóu, Heiðari, Guðmundi á Hnappavöllum og Öræfaferðum. Samtök sunnlenskra sveitarfélaga styrktu kórinn um kr. 200.000.- fyrir þetta ferðalag og þakkar kórinn kærlega öllum þessum aðilum fyrir. Kórkonur vilja líka nota tækifærið og þakka Hauki Gíslasyni fyrir að gera kórnum mögulegt að halda tónleika á söngpalli í maí. Samt sem áður hefur kórinn ekki haft sín venjulegu tækifæri fyrir fjáraflanir og þessi uppátæki hafa vissulega komið við pyngjuna. Þess vegna langar kórkonum að bjóða vinum og velunnurum kórsins að styðja við starfsemina með frjálsum framlögum inn á reikning kórsins:
0169-26-08000, kt: 630997-3139.
Að lokum má geta þess að kórkonur bíða spenntar eftir að vera boðaðar til að syngja við brúarvígslur í sýslunni í framtíðinni.