Útskriftarferð 10. bekkjar 2020

0
1062
Flottur hópur sem var að ljúka 10. bekk

Við í tíunda bekk í Grunnskóla Hornafjarðar lögðum af stað í útskriftarferðina okkar þriðjudaginn 2. júní. Með okkur voru Nanna Dóra, umsjónarkennarinn okkar og Eygló aðstoðarskólastjóri.
Byrjuðum við á því að fara á kajak á Heinabergslóni með iceguide.is. Við fengum lánaða þurrbúninga, skó og hanska svo við myndum ekki blotna. Við fengum bæði  eins og tveggja manna kajaka. Svo sigldum um lónið og stoppuðum til að fara upp á jökulinn, löbbuðum aðeins um þar áður en við fórum aftur í kajakana og sigldum til baka. Það var mikið fjör í hópnum, við skvettum hvert á annað og kepptumst um hver kæmist hraðast. 
Eftir kajakaferðina heimsóttum við kúabúið í Flatey, sem er eitt af stærstu kúabúum á landinu. Við fengum að vita margt um kýr, hversu oft þarf að mjólka þær og margt fleira. Eftir það fórum við á Hala þar sem við fengum grillaðar pylsur og djús. 
Síðan lögðum við stað í jöklagöngu með Glacier Adventures. Í göngunni sáum við hversu fallegur og stórbrotinn jökullinn getur verið. Klukkan var u.þ.b átta um kvöldið þegar við komum úr jöklagöngunni og fengum við þá kvöldmat á Gerði, súpu í forrétt, lasagna í aðalrétt og búðing í eftirrétt. Eftir kvöldmatinn héldum við kvöldvöku í hlöðunni á Hala, spiluðum og fengum okkur nammi, snakk og gos. Nálægt hlöðunni er kríuvarp og settum við á okkur hjálma og fórum að skoða eggin. Eftir það náðum við í bolta og fórum í boltaleik fyrir utan hlöðuna. Þegar klukkan fór að nálgast miðnætti fórum við inn. Við gistum á Gerði.
Daginn eftir byrjuðum við á því að fara i siglingu í Jökulsárlóni á hjólabát Við vorum öll í einum báti og fengum leiðsögn um lónið. Eftir siglinguna fórum við í klettaklifur í Hnappavallahömrum. Við vorum fest í öryggislínu til að hjálpa okkur í klifrinu og svo að við myndum ekki detta niður. Það var mikil áskorun fyrir lofthrædda að klifra en það var mjög skemmtilegt og maður varð mjög ánægður og stoltur af sjálfum sér þegar komið var niður. Það gátu bara þrír klifrað í einu og á meðan við biðum fylgdumst við með þeim sem voru að klifra, nutum góða veðursins og borðuðum kleinur sem við höfðum fengið í nesti  frá Hala. 
Þegar allir voru búnir að klifra nóg fórum við á Hrollaugsstaði og grilluðum okkur hamborgara og sykurpúða. Síðan fórum við á hestbak í Lækjarhúsum þar sem Snæsa tók á móti okkur og aðstoðaði með hestana. 
Á leiðinni heim úr ferðinni stoppuðum við í Brunnhól og fengum ís.
Við vorum einstaklega heppin með veður þessa tvo daga, sólin skein og það var frekar hlýtt. Það var tekið vel á móti okkur alls staðar og okkur langar til að þakka fyrir góðar mótttökur. Ferðin var lærdómsrík og skemmtileg. Við fengum góða leiðsögn á öllum stöðunum og við fræddumst mikið um jöklana og nærumhverfið. Það var gaman að upplifa hversu mikil og skemmtileg afþreying er í boði í kringum okkur.

Fyrir hönd 10. bekkjar
Selma Ýr Ívarsdóttir