Brúum kynslóðarbilið, og tökum þátt í starfinu með börnunum

0
665

Nú fer að hefjast sumartímabilið hjá okkur hjá Ungmennafélaginu Sindra. Vegna Covid-19 hefst sumartímabilið seinna og leikið verður mjög þétt í fótboltanum til dæmis. Það þýðir að það verða margar íþróttaferðir um allt landið.
Besta forvörnin gegn vímuefnaneyslu er samvera barna með foreldrum. Íþróttaferðir eru frábærar þar sem mikill tími gefst til að spjalla við krakkana, hlusta á þeirra hugmyndir, ræða málin og skipuleggja framtíðina, eða bara hlusta saman á sögur, útvarp eða tónlist. Í þeim rannsóknum sem hafa skoðað forvarnir er einmitt heildartíminn stærsti þátturinn sem skiptir máli, en ekki hversu kostnaðarsöm eða hversu stór viðburðurinn er sem fjölskyldan tekur þátt í, heldur bara að það séu sem flestir klukkutímar yfir ákveðið tímabil.
Þess vegna hvetjum við foreldra til að taka þátt í íþróttastarfi barna sinna, fara með þeim í íþróttaferðir og búa til skemmtilegar minningar með börnunum sem hægt er að deila saman seinna meir. Fáar aðrar athafnir skapa jafn mikil samskipti og íþróttir og íþróttaferðir. Einnig eru íþróttaleikir góð skemmtun fyrir alla fjölskylduna og gaman að mæta á völlinn og hvetja sína menn og konur.
Ungmennafélagið Sindri rekur bíla til þess að hjálpa undir með foreldrum að hafa ferðalögin sem hagkvæmust. En það þarf að keyra bílana, og það þarf að vera tengiliður og halda utanum hópinn á ferðalögum. Það hefur verið frábær hópur sjálfboðaliða sem hefur tekið að sér að fara með krakkana á þessi íþróttamót, og við hvetjum alla foreldra til að taka þátt í starfinu og búa til sem besta umgjörð fyrir krakkana. Það eru allir velkomnir allir geta hjálpað eitthvað til.
Nú víkur sögunni að ákveðnum vágesti hérna á Höfn, og það er aukin fíkniefnaneysla. Það er staðreynd að greindarvísitala þeirra sem reykja kannabis lækkar við reikingarnar og er það andstætt þeim íþróttagildum sem við viljum kenna börnunum. Slíkur vágestur verður ekki kveðinn niður nema að allt samfélagið taki virkan þátt í því að fordæma notkun kannabisefna og hjálpi Lögreglu og félagsmálayfirvöldum að koma í veg fyrir að þetta fá að vaxa hér á Höfn óátalið.
Með fjölbreyttu íþróttalífi og félagsstarfi er hægt að leggja grunninn að góðu lífi ungra einstaklinga og byggja þá upp fyrir framtíðina í staðinn fyrir að leyfa þeim að misstíga sig og missa tökin, því það getur tekið stuttan tíma að falla mjög djúpt eins og hefur komið fram í fyrirlestri sem var hér á Höfn síðasta vetur.
Ungmennafélagið Sindri býður upp á fjölmargar íþróttagreinar og vonandi finna allir krakkar eitthvað við sitt hæfi í sumar. Ef einhver er með hugmyndir eða tengingar í einhverjar íþróttagreinar er honum velkomið að hafa samband við okkur og við sjáum hvernig hægt er að búa til eitthvað skemmtilegt.
Við hvetjum alla til að hreyfa sig í sumar og ná af sér Covid-bumbunni. Hreyfing eykur blóðflæðið í líkamanum, jafnt til heila sem útlima. Þeir sem hreyfa sig reglulega standa sig betur í námi og sterkar vísbendingar eru um að hreyfing hafi jákvæð áhrif á andlega heilsu og áhrif hreyfingar á líkamlega heilsu er óumdeilt.
Tökum höndum saman og byggjum upp heilbrigt og jákvætt samfélag.
Gleðilegt sumar

Lárus Páll Pálsson
framkvæmdastjóri UMF. Sindra