Mánudaginn 9. mars síðastliðinn afhentu Lionsklúbbur Hornafjarðar og Lionsklúbburinn Kolgríma heilsugæslunni góða gjöf.
“Við erum þakklát Lions fyrir þeirra gjafir í gegnum tíðina og ekki síður þakklát fyrir nýjustu viðbótina, en það var eyrnaþrýstimælir og augnþrýstimælir.
Eyrnaþrýstimælirinn mælir hvort hljóðhimnan hreyfist. Hjá börnum er algengt að þau heyri illa vegna vökva í eyrum í kjölfar eyrnabólgu. Þegar þau eru undir 2ja ára, er hætt við að þau verði eftir á í málþroska, ef þau heyra illa réttan framburð á orðunum. Einnig má nota þennan mæli til að meta virkni af eyrnabólgumeðferð. Hægt er að mæla nýfædda sem og fólk á öllum aldri.
Augnþrýstimælir er ekki staðal búnaður á heilsugæslum almennt, þar sem oftast er styttra í sérhæfða aðstoð en hjá okkur. Þetta tæki mælir þrýsting í fremsta hólfi augans. Háþrýstingur í auga, oftast nefnt gláka, er algengt vandamál hjá fólki frá miðjum aldri og uppúr. Flestir með gláku eru í reglulegu eftirliti hjá augnlækni og þurfa að vera það áfram. En það sem við getum gert núna, er að meta hvort það sé skyndileg versnun á gláku, hvort fólk sé með bráða-gláku eða hvort augnþrýstingur er hækkaður eftir áverka á auga. Þar sem heilsugæslan er einnig bráðamóttaka fyrir suðausturland, teljum við mikilvægt að við getur metið, greint og meðhöndlað bráða augn-vandamál eins og önnur vandamál.
Starfsfólk heilsugæslunnar þakkar fyrir sig.”
Nóg er framundan hjá Lions konum- og mönnum en karlarnir halda sitt árlega Kútmagakvöld í Sindrabæ laugardaginn 28. mars og sama kvöld halda konurnar Krúttmagakvöld á Hafinu.
ATH. Búið er að fresta Kútmagakvöldi og Krúttmagakvöldi fram á haust