Steinagarður við Náttúrustíg á Hornafirði

0
1568
Skilti á einum steinanna í steinagarðinum. Þessi steinn var sóttur á Breiðamerkursand og er úr fínkorna gabbrói. Hann vegur u.þ.b. 1800 kg og hefur verið færst með jöklinum úr fjallgarðinum og fram á sandinn. Mynd Kristín Hermannsdóttir 6. desember 2019.

Við Náttúrustíginn, þ.e. göngustíginn sem liggur frá Óslandshæð og inn að golfvelli, á Höfn í Hornafirði, hefur verið settur upp „steinagarður“. Steinarnir eru staðsettir á túninu vestan við Nýheima. Steinagarður er e.k. kynningarreitur fyrir jarðfræði svæðisins, og þar eru kynntar nokkrar bergtegundir Suðausturlands með hressilega stórum grjóthnullungum og grettistökum. Steinarnir koma frá völdum stöðum í sveitarfélaginu og eru dæmi um helstu einkennisbergtegundir á þessum slóðum. Kynningarskilti lýsa hvernig bergið hefur myndast og hvaðan steinarnir koma. Á hverjum steini eru upplýsingar um bergtegundina og hve þungt þeir vega.

Tveir steinar við stíginn, sá sem er nær er frá Borgarhafnarheiði og sá sem er fjær er frá Litlahorni. Mynd: Kristín Hermannsdóttir 8. október 2018

Náttúrustígurinn var fyrst settur upp árið 2014 fyrir tilstuðlan Náttúrustofu Suðausturlands, með stuðningi Sveitarfélagsins og Vina Vatnajökuls. Tilgangurinn var að glæða lífi göngustíginn vestan við bæinn, sem heimafólk þekkir vel til og hefur notað sér til heilsubótar í mun lengri tíma. Markmiðið með þessu verki var fræðsla um náttúruna, frá því stóra til hins smærra, frá sólkerfinu til bergtegunda í sveitarfélaginu og jafnvel fleira. Styrkur stígsins felst þó ekki síður í hinu fallega útsýni yfir fjörðinn til Vatnjökuls og eru Hornfirðingar öfundsverðir fyrir að hafa slíkan stíg.
Inni í Nýheimum hafa verið settir upp nokkrir steinar og steingervingar úr steinasafni Þorleifs Einarssonar jarðfræðings. Hann gaf Rannsóknarsetri Háskóla Íslands á Hornafirði hluta af bergsýnasafni sínu. Það er núna hýst hjá Framhaldsskólanum í Austur-Skaftafellssýslu (FAS). Valin voru nokkur eintök til sýningar í sýningarborð sem er á vesturgangi á neðri hæð Nýheima og í glerskápum á efri hæð, rétt ofan við stigann.
Með tilkomu steinagarðsins var kynningarblöðungur um Náttúrustíginn og sólkerfið endurnýjaður. Hann verður sendur inn á öll heimili í Sveitarfélaginu Hornafirði og dreift til ferðaþjónustuaðila sem geta miðlað þeim áfram til gesta sem heimsækja okkur í hérað. Fólk er hvatt til að koma, eða bjóða gestum sínum að fræðast um steinana í steinagarðinum eða steingervingana í Nýheimum, sér til fræðslu og ánægju.
Einnig hafa skilti við sólkerfið verið endurnýjuð og má finna nýtt efni frá nemendum Grunnskóla Hornafjarðar á þeim flestöllum. Viðhald við Náttúrustíginn er á lokametrunum og stutt í að búið verði að lagfæra nokkrar reikistjörnur og setja upp nýjan „Satúrnus“ við Ránarslóð en honum var stolið fyrir nokkru. Við vonum að líkanið fái að standa óskemmt áfram enda er það óyggjandi mikil prýði fyrir bæjarfélagið að geta boðið gestum sínum og öðrum gangandi upp á slíka afþreyingu sem Náttúrustígnum er ætlað að vera.