Hornafjörður togaði okkur til sín

0
2109
Helena Bragadóttir og Gunnar L. Friðriksson

Gunnar og Helena eru starfandi og búandi hér á Höfn þessi misserin. Hornafjarðarævintýrið byrjaði á þann veg að Helena heimsótti bróður sinn og mágkonu sem höfðu keypt sér hús og opnað veitingastaðinn Ottó. Staðurinn togaði Helenu til sín, sem flutti haustið 2018 og Gunnar, hundur og kettir komu í kjölfarið. Gunnar er heilsunuddari í Sporthöllinni og sjúkraliði og hefur verið með nuddnámskeið hér á Höfn og austfjörðum. Helena er hjúkrunarstjóri á Skjólgarði og er með langa reynslu í geðhjúkrun og hefur sérmenntað sig þar. Sameiginlegur áhugi þeirra á hugleiðslu og núvitund leiddi þau á Hugleiðlsu og friðarmiðstöðina í Reykjavík fyrir um það bil áratug síðan. Í framhaldinu hafa þau sótt sér þekkingu víða, en aðallega í Skotlandi. Þau tóku leiðbeinendaréttindi hjá Mindfulness association í Skotlandi að undangenginni þjálfun, og hafa farið á ótal hlédrög og námskeið, til að halda sér við og dýpka sig í hugleiðslu. Aðallega hafa þau sótt í smiðju nágranna okkar í Skotlandi, en þar er staðsett fyrsta tíbetska klaustur í Evrópu, Samye Ling. Einnig hafa þau farið á Holyisland á vesturströnd Skotlands, þar sem lengri námskeið hafa verið haldin, fjarri erli og áreiti hversdagslífsins. En það getur verið þrautin þyngri að halda sér í jafnvægi, iðka og takast á við streitu og áreiti hversdagsins, og er námskeiðið hugsað sem leið til að fara í lífinu, á meðan tekist er á við allar þær áskoranir sem lífið hefur uppá að bjóða. Þessvegna er námskeiðið kallað ,,Núvitund í daglegu lífi“ Boðið verður uppá námskeið hér á Höfn sem hefst 28. janúar, sem passar vel inn í gróskuna sem er hér á Hornafirði.