Ungmennafélagið Sindri 85 ára

0
897
Þeir einstaklingar sem styrktu UMF Sindra við kaup á Heklu

Ágætu lesendur. Hratt flýgur stund. Mér finnst eins og það hafi verið í gær sem við hjá UMF Sindra héldum upp á 75 ára afmæli félagsins. Margir iðkendur félagsins eru kannski ekki á sama máli og finnst þessi ár hafa verið lengi að líða því þeir hafa beðið óþreyjufullir eftir að stækka og eflast til að gera betur í íþróttunum. En samt sem áður, eftir 85 ár stöndum við enn; sterkt félag með blómlega starfsemi. Og það er ekki sjálfgefið í ekki stæra byggðarlagi. Undanfarin ár hefur félagið haldið úti sjö íþróttagreinum og á þessu hausti bættist sú áttunda við en það eru rafíþróttir þar sem 8-10 krakkar hafa mætt reglulega á æfingar tvisvar í viku. Fyrir voru blak, fimleikar, frjálsar íþróttir, knattspyrna, kraftlyftingar, körfubolti og sund.

Hekla

Ásgrímur Ingólfsson á opnunarhátíð Heklu. Mynd: Benóný Þórhallsson

Þegar sveitarfélagið og Sindri tóku höndum saman um kaup á Heklu breyttust aðstæður félagsins mikið. Sveitarfélagið lagði til helminginn af kaupverðinu og studdi félagið þar með ómetanlega. Sindri þurfti að finna hinn helminginn af kaupverðinu og ætla ég enn og aftur að þakka þeim einstaklingum sem lögðu félaginu lið með beinum fjárframlögum og eða endalausri vinnu við breytingar á húsnæðinu. Án þessa stuðnings hefðu kaupin á Heklu verið félaginu ókleyf. Með tilkomu Heklu varð mun auðveldara fyrir þær deildir sem hafa þurft að fá mannskap til að styrkja sínar raðir að koma mannskapnum fyrir, og svo hefur félagið sinnt innra starfinu betur, og bryddað upp á nýjungum og eru rafíþróttirnar t.d. hluti af því. Sindri er bara að stíga sín fyrstu skref í Heklu, en við í stjórn Sindra erum sannfærð um að þar á félagið eftir að blómstra

Rekstur og rútur

Að reka félag eins og Sindra er fyrirhöfn og verður aldrei gert án endalausrar sjálfboðavinnu en sú vinna er fyrirhafnarinnar virði. Rekstur deilda hefur verið með ágætum og eiga stjórnir og auðvitað foreldrar þakkir skildar fyrir dugnaðinn. Auk þess að leggja til húsnæði í Heklu fyrir deildir þá heldur félagið úti rútum sem eru mikil búbót fyrir deildir og foreldra, auk þess sem það er umhverfisvænna að senda rútu í ferð fremur en tvo til þrjá bíla. Ferðalög okkar iðkenda eru mikil og til vitnis um það þá eru bílarnir okkar að keyra um 100 þúsund km á ári. Margir árgangar eru frekar fámennir sem gerir það að verkum að félög Austanlands hafa hjálpast við að halda úti liðum, og eykur það enn á aksturinn. Nú er Sindri að hefja endurnýjun á flotanum og er ætlunin að vera með tvo nýlega níu manna bíla. Erum með einn fjórtán manna sem er kominn til ára sinna en við ætlum að keyra hann út.

Landsmót og samningur

Um verslunarmannahelgina var haldið hér glæsilegt unglingalandsmót og eiga allir sem tóku þátt í því hvort sem um var er að ræða starfsmenn eða keppendur miklar þakkir skilið. Gestir okkar dásömuðu allan aðbúnað og umgjörð mótsins og var mótið á allan hátt okkur Hornfirðingum til mikils sóma. Á haustmánuðum var endurnýjaður samningur á milli UMF Sindra og sveitarfélagsins. Sá samningur gerir Sindra kleift að halda áfram því þróttmikla starfi sem félagið stendur fyrir um ókominn ár. Það skiptir okkur Hornfirðinga miklu að hér sé blómlegt félagsstarf og er ég þá ekki eingöngu að tala um UMF Sindra heldur einnig þau fjölmörgu félagasamtök sem eru hér starfandi. Öflugt félagsstarf er aðalsmerki hvers samfélags en til þess þarf mikið af fólki sem er reiðubúið að leggja umtalsverða vinnu á sig. Vinnu sem er ólaunuð en gefur þeim sem leggur hana til þó ótrúlega mikið. Þannig er sjálfboðavinna ekki kvöð heldur fyrst og fremst gleði því fólk sem leggur sig fram til sjálfboðaliðastarfa uppsker þakklæti, gleði og veit að vinna þess skiptir máli.

Að lokum

Það voru mikla áskoranir sem biðu frumkvöðla UMF Sindra fyrir 85 árum og það hafa verið áskoranir æ síðan. Mikilvægt er að líta ekki á áskoranir sem hindranir heldur fyrst og fremst verkefni sem þarf að vinna. Allt það fólk sem ég hef starfað með undanfarin ár hefur verið lausnarmiðað og tilbúið að takast á við hin ýmsu verkefni, hinar ýmsu áskoranir með jafnaðargeði. Þjálfaramál, leikmannamál, foreldramál, fjármál, bílamál, ferðamál svo ekki sé minnst á blessað veðrið. Þegar öllu er á botninn hvolft þá er fyrst og fremst gaman og gefandi að takast á við þessar áskoranir.

Afmælisveisla

Um leið og ég þakka fyrir að hafa fengið að gegna formannsstarfi í Sindra síðustu rúm 10 ár og óska Tónskóla Austur-Skaftafellssýslu til hamingju með 50 ára afmælið þá vil ég fyrir hönd UMF Sindra bjóða ykkur í kaffi í Sindra næsta sunnudag 1. desember í hús félagsins, Heklu kl 15:00 en 1. desember var einmitt stofndagur Sindra fyrir 85 árum.
Tilvalið að kíkja við og skoða húsið eftir tónleikana hjá Tónskólanum.

Ásgrímur Ingólfsson
formaður Ungmennafélagsins Sindra