Arndís Ósk hlýtur styrk úr Afreks- og hvatningarsjóði Háskóla Íslands

0
1855

Þann 25. júní síðastliðinn voru veittir styrkir úr Afreks- og hvatningarsjóði Háskóla Íslands í tóflta sinn. Í ár hlutu 29 nemendur, sem stefna á nám við HÍ styrki og þar á meðal var Hornfirðingurinn Arndís Ósk Magnúsdóttir. Allir styrkþegar eiga það sameiginlegt að hafa náð framúrskarandi námsárangri og einnig verið virk í félagsstörfum eða í listum og íþróttum. Arndís útskrifaðist úr Framhaldsskóla Austur-Skaftafellsýslu nú í vor með besta árangur á stúdentsprófi. Eystrahorn spurði Arndísi nokkuru spurninga til að gefa lesendum innsýn í líf þessara ungu hæfilekaríku konu.
Hverju þakkar þú þann námsárangur sem þú hefur sýnt ?
Það vill svo til að ég hafði afskaplega gaman af náminu og áhugasvið mitt liggur nákvæmlega á Hug – og félagsvísindabraut (sitt hentar hverjum!). Að sjálfsögðu þarf samt meira til. FAS er virkilega hvetjandi og skapandi. Ég á starfsmönnum þar svo mikið að þakka að ég á erfitt með að koma orðum að því. Það eru algjör forréttindi að hafa bæði kynnst þeim og lært af þeim. Ég lít á framhaldsskólaárin með þakklæti efst í huga og vonast bara til þess að geta á einhvern hátt gefið skólanum til baka það sem hann hefur gefið mér.
Hvaða áhugamálum hefur þú sinnt meðfram náminu ?
Meðfram náminu spila ég á píanó og hef verið í tónskólanum í nú að verða 10 ár. Ég hef líka brennandi áhuga á mannréttindum og félagsmálum. Þess konar starf veitir mér heilmikla orku og ánægju, sem ég hef fengið í gegnum ungmennaráð, nemendaráð og ungliðastarf hjá Amnesty International. Síðan hef ég gaman af bókmenntum og reyni að lesa alltaf þegar tími gefst til.
Í hvaða háskólanám stefnir þú á og afhverju ?
Ég er komin inn í lagadeild Háskóla Íslands þar sem ég mun hefja nám í haust. Ég valdi þá námsleið til þess að nálgast mannréttindasvið, en ég stefni á að starfa innan þess í framtíðinni.
Eitthvað að lokum ?
Að lokum langar mig að beina orðum að ungmennum á Hornafirði og hvetja þau til þess að rækta heimabyggð sína. Hér er margt til reiðu, og ef þú sérð ekki tækifæri í umhverfinu í kringum þig, komdu þeim þá til þín. Náðu í fræin annars staðar, en gróðursettu þau og leyfðu þeim að blómstra þar sem þú átt rætur.