Körfubolta námskeið fyrir börn og fullorðna

0
1393

Körfuboltamaðurinn og þjálfarinn Brynjar Þór Björnsson mætir á Höfn dagana 6. og 7. júní og verður með körfuboltanámskeið fyrir börn og fullorðna. Hann er áttfaldur Íslandsmeistari og á að baki 69 A-landsleiki fyrir Ísland. Hann hefur síðastliðin ár fært sig meira út í þjálfun samhliða því að spila körfubolta fyrir KR og nú síðastliðið tímabil fyrir Tindastól.
Við hjá Eystrahorni ákváðum að heyra í Brynjari og fræðast betur um þetta verkefni hans.

Hvernig kom það til að þú fórst út í þjálfun samhliða því að spila körfubolta?
Sumarið 2016 stóð ég á krossgötum í lífinu. Ég ákvað að taka mér smá hlé frá námi og fara að gera eitthvað annað en að spila og vera í háskóla.
Mig langaði ekki að fara í þessa hefðbundnu 8-4 vinnu og þurfti þ.a.l. að búa mér til starf. Ég hélt þá mínar fyrstu körfuboltabúðir fyrir krakka og heppnuðust þær vel ótrúlega vel. Þegar ég var að auglýsa búðirnar fóru vinir mínir að grínast með það skrá sig líka á þessar körfuboltabúðir og þar kviknaði hugmyndin að Körfuboltaþjálfun Brynjars fyrir fullorðna.

mynd

Hvernig tóku áhugamennirnir í námskeiðin?
Fyrsta námskeiðið var í september 2016 og tóku körfuboltaáhugamennirnir frábærlega í þetta. Síðan þá hafa hátt í 130 einstaklingar mætt á námskeið og upplifað það hvernig það er að stunda einstaklingsmiðaðar körfuboltaæfingar. Æfingarnar eiga í raun að koma í stað þess að fara í ræktina. Þetta á að vera góður klukkutími af mikilli keyrslu og einstaklingurinn á að komast í mjög gott form.

Nú ertu að fara af stað með spennandi verkefni á Austfjörðum þar sem þú verður með námskeið á Egilsstöðum, Neskaupstað og hér Höfn – hvað kom til að þú ákvaðst að fara í þetta verkefni?
Veturinn 2012 fengum ég og konan mín þá hugmynd að fara hringinn í kringum landið og vera með körfuboltabúðir á landsbyggðinni. Það tók mig svo 7 ár að framkvæma þessa hugmynd og má segja að þetta sé generalprufa fyrir sumarið 2020 þar sem stefnan er sett á að fara á mun fleiri staði. Körfubolti hefur verið í mikilli sókn enda hentar körfuboltinn frábærlega fyrir fámennari samfélög þar sem einungis þarf körfu og bolta. Þess vegna finnst mér þetta frábært tækifæri til að kynna körfubolta bæði fyrir börnum og fullorðna. Körfubolti er fjölbreytt íþrótt sem reynir mikið á samhæfingu líkamans.

Hvenær verða æfingarnar?
Krakkarnir munu æfa frá 9:00 til 11:30 og fullorðna fólkið verður eftir vinnu klukkan 18:00 til 19:00. Ég veit að krakkarnir munu fjölmenna en ég vona að ég sjái sem flesta fullorðna því ég veit að það mun koma þeim á óvart hversu erfiður en skemmtilegur körfubolti er.