Hvað er Kiwanis ?

0
1674
Sigurður Einar Sigurðsson og Gunnar Gunnlaugsson taka við viður­kenningu frá umdæmisstjóra Eyþóri K. Einarssyni Kiwanisumdæminu Ísland-Færeyjar

Oft erum við spurðir hvað Kiwanis er.
Kiwanis er alheimssamtök sjálfboðaliða sem hafa það að markmiði að bæta heiminn með þjónustu í þágu barna.
Kiwanis er alþjóðleg þjónustuhreyfing manna og kvenna, sem hafa áhuga á að taka virkan þátt í að bæta samfélagið, og láta gott af sér leiða.  Í samstarfi fá þessir aðilar áorkað því sem einstaklingar geta ekki einir. Frjálst samstarf gerir þeim kleift að vinna að alþjóðlegum verkefnum innan hinnar alþjóðlegu hreyfingar.
Þeir vinna einnig að umbótum á landsvísu.  Ekki síst vinna þeir að mannúðar- og framfaramálum sem horfa til heilla fyrir bæjarfélag þeirra, sem opinberir aðilar annað hvort vilja ekki eða geta ekki sinnt.  Þannig verða þeir leiðandi aðilar í sínu byggðarlagi.
Sem dæmi má nefna aðstoð við ungt fólk eða aldrað, náttúruvernd, þróun félagslegrar aðstöðu og eflingu vináttu og skilnings milli manna og þjóða.  Hvert svo sem markmið Kiwanisfélaga er, þá er þeim öllum sameiginlegur þjónustuviljinn og löngunin til að eignast góða félaga innan klúbbsins síns og Kiwanishreyfingarinnar.
Kiwanisklúbburinn Ós hefur starfað hér í sveitarfélaginu í 31 ár. Fljótlega var stofnaður styrktarsjóður til að halda utan um ágóða af verkefnum klúbbsins sem fara í styrki. Fyrsta stóra verkefni klúbbsins var að gefa leikaskólanum kastala og hefur Ós alltaf stutt leikskólann á Höfn gegnum árin. Árlega eru tíu bágstaddar fjölskyldur styrktar í kringum jólin og nýttist hluti af jólatréssölunni í það. Þá hefur Ós styrkt grunnskólann og framhaldsskólann með veglegum gjöfum.

Pétur Bragason forseti Óss afhenti Eyþóri K. Einarssyni umdæmisstjóra forláta bréfahníf sem þakklætisvott fyrir gott erindi um hjálparstarf Kiwanis.
Pétur Bragason forseti Óss afhenti Eyþóri K. Einarssyni umdæmisstjóra forláta bréfahníf sem þakklætisvott fyrir gott erindi um hjálparstarf Kiwanis.

Heilbrigðisþjónustan hefur fengið sinn hluta af söfnunarfé til tækjakaupa og ýmsar safnanir til hjálpar langveikum börnum hafa fengið sinn skerf. Það er von okkar að páskabingóið gangi vel svo hægt sé að styrkja nærsamfélagið.
Kiwanis er með landsverkefni á hverju á ári en það er hjálmaverkefnið til sex ára barna og verður hjálmaafhendingin í ár í Hafnarskóla þann 29. apríl. Enn fremur er K-dagurinn haldinn á þriggja ára fresti með sölu K-lykils eða merki. Að þessu sinni mun Körfuboltadeild Sindra ganga í hús á Höfn og Nesjum til að selja. Kiwanisfélagar verða í Miðbæ dagana 3. – 5. maí með sölu á K-dags merkjum og vonumst við eftir að sölufólki verði vel tekið en sölutímabilið er á milli 1. – 10. maí.
Þá má að lokum geta þess að það stendur til að stofna kvennaklúbb hér á Höfn. Kynningafundur verður auglýstur í haust og það væri gaman að sjá öflugan kvennaklúbb á Höfn. Hægt er að vera með með því að senda póst á osformulan@kiwanis.is til að vera með frá byrjun.

Gleðilega páska
Stjórn Kiwanisklúbbsins Ós