Syngjandi konur í kirkjum

0
1212

Eins og Hornfirðingar eflaust vita átti Kvennakór Hornafjarðar 20 ára afmæli á síðasta söngári. Vorum við kórkonur duglegar að halda upp á afmælið og héldum m.a. vortónleika á Hafinu (þar var met aðsókn og þurfti að kippa inn sólhúsgögnum og öðru lauslegu úr nærliggjandi görðum svo fólk gæti setið og dugði ekki til), við fórum í söngferð til Vopnafjarðar (sungum í Egilsstaðakirkju í leiðinni, sem betur fer voru nógu mörg sæti þar svo við lentum ekki í neinum vandræðum) og svo voru öll félagsheimili sýslunnar þrædd þar sem við sungum af lífi og sál fyrir gesti og gangandi. Þetta var mjög gaman og mjög vel heppnað og voru gestirnir okkar ánægðir með uppátækið. Við höfum því ákveðið að endurtaka leikinn og nú ætlum við að syngja í öllum kirkjum sýslunnar laugardaginn 6. apríl. Hér fyrir neðan má sjá ferðaáætlun kórsins og eru allir sem vettlingi geta valdið hvattir til að koma, hlusta og njóta.

Stafafellskirkja kl. 10:00
Kaþólska kirkjan kl. 11:00
Hvítasunnukirkjan kl. 11:30
Hafnarkirkja kl. 12:00
Bjarnaneskirkja kl. 14:00
Hoffellskirkja kl. 14:45
Brunnhólskirkja kl. 15:30
Kálfafellsstaðarkirkja kl. 17:30
Hofskirkja kl. 19:00

Erna og Styrgerður