Humarhátíð – Er það ekki?

0
2153

Nú nálgast helgin óðum og Humarhátíðin færist nær. Allt er þetta að taka á sig mynd sem fer að fljóta út á netið næstu daga. Sem er bara spennandi.

Humarhátíðarnefndin í ár er sett saman af fólki sem kemur úr öllum áttum. Við erum að leggja í vegferð sem við vonumst til að beri þann árangur að Humarhátíðin okkar verði fyrir okkur bæjarbúa, gamla sem unga.

Til þess að þetta takist þurfa margir að vinna saman, humarsúpan er til dæmis á sínum stað og að henni standa einstaklingar í boði Sinney Þinganess og Nettó. Einstaklingarnir bjóða okkur hinum heim í garð að smakka súpu. Þeir eru að leggja sitt af mörkum til þess að hátíðin verði skemmtilegri fyrir okkur.

Fleiri aðilar leggja sitt af mörkum svo af þessu verði, því í slíku grettistaki sem ein svona hátíð er þá þarf margar hendur.

Sindri hefur staðið sína vakt undanfarin ár og haldið hátíðina fyrir bæjarbúa og hefur staðið sig vel. Sindri ætlar að leggja sitt af mörkum og halda stórdansleik í Íþróttahúsinu á laugardeginum.

Karlakórinn ætlar að leggja sitt af mörkum og vera með dansleik í Sindrabæ á föstudagsvköldinu.

Við í nefndinni ætlum að leggja okkar af mörkum og standa vaktina á meðan aðrir njóta en við ætlum að njóta í leiðinni. Heimatjaldið á sínum stað með skemmtikröftum en einnig verður hátíðarsvið úti því við ætlum að skemmta okkur úti líka.

Auðvitað verða einstakir viðburðir eins og kassabílarallí og söngvakeppni. Ekki gleyma heimsmeistaramóti í Hornafjarðarmanna. Hvergi annarstaðar í veröldinni er þetta heimsmeistaramót haldið og hefur verið síðan 1997 að mig minnir. Já hátíðin er orðin föst í sessi hér á Hornafirði og hér á hún að vera.

Okkur vantar sjálfboðaliða til að vinna með okkur yfir hátíðina. Félagasamtök sem eru tilbúin að taka að sér hlutverk. Einstaklinga sem vilja láta gott af sér leiða og vinna hátíðinni og samfélaginu gagn.

Koma svo skemmtum okkur saman á Humarhátíð vinnum saman.

F.h. Humarhátíðarnefndar
Kristín G. Gestsdóttir