Staðan og framtíðin

0
2494

Sveitarstjórnarkosningar fara fram laugardaginn 26. maí. Mikilvægt er að nýta kosningarrétt sinn og hafa áhrif á mótun framtíðar og þau verkefni sem stefnt er að til næstu ára. Listi Sjálfstæðisflokksins fyrir komandi sveitarstjórnarkosninga er skipaður hópi fólks sem er tilbúið að takast á við þau verkefni sem framundan eru. Sjálfstæðismenn hafa verið í meirihlutasamstarfi á því kjörtímabili sem nú er að ljúka. Það hefur verið ráðist í miklar nýframkvæmdir og endurbætur. Framtíðarsýnin er skýr sem kom berlega fram í stefnuskrá framboðsins sem kom út með Eystrahorni 9. maí s.l.

Framkvæmdir

Framkvæmdir við fráveitu sem setja sveitarfélagið framarlega í röð meðal sveitarfélaga hvað þau mál varðar. Fráveituhreinsivirki var byggt og tekið í notkun fyrir Nesjahverfið og nærsvæði þess. Unnið er að lagningu stofnlagna og verður fráveituhreinsivirki fyrir þéttbýlið á Höfn byggt og tekið í notkun á þessu ári. Halda þarf áfram með þessi verkefni þar til öll fráveita frá þéttbýlinu fer í gegnum hreinsivirkið. Kortlagning og skipulag fráveitumála í dreifbýli er einnig atriði sem þarf að huga að. Jafnhliða endurbótum í fráveitu verður ráðist í lagfæringar á götum og gangstéttum. Mikilvægt er að koma stofnlögnum og hreinsivirki í framkvæmd áður en hægt er að laga yfirborð gatna og gangstétta. Nú er að ljúka framkvæmdum við nýjan leikskóla. Kostnaður við framkvæmdina er á áætlun, og útkoman í samræmi við þær kröfur og væntingar sem gerðar eru til leikskóla í dag. Vert er að nefna að við þessar breytingar mun húsnæðið sem áður hýsti Krakkakot nýtast fyrir málefni fatlaðra, þar sem núverandi húsakostur er of lítill fyrir starfsemina.

Ferðaþjónusta

Ferðaþjónusta er sívaxandi atvinnugrein og mikilvægt að styðja við það frumkvöðlastarf sem þar á sér stað. Slow Adventure ferðamennska sem hefur verið í þróun hjá Háskólasetrinu á Hornafirði getur skapað okkur í þessu sveitarfélagi sérstöðu og sóknartækifæri. Hornafjarðarflugvöllur sem millilandaflugvöllur fyrir minni farþegaflugvélar gæti verulega stutt við þessa tegund ferðamennsku. Víða eru tækifæri í okkar samfélagi sem huga þarf að. Hlúa þarf að þeim sprotum sem kvikna því lítill vísir getur orðið að miklu. Traust og fjölbreytt atvinnulíf er undirstaða fjölbreytts samfélags menningar- og atvinnutækifæra.

Samfélagið

Öflugt samfélag þarf góða heilbrigðis­þjónustu, góð tækifæri til menntunar frá leikskóla til framhaldsskóla, nægt framboð á fjölbreyttum atvinnutækifærum og möguleika til nýsköpunnar. Einnig er mikilvægt að nægt framboð sé á íbúðarhúsnæði. Liður í því hefur verið að fella niður gatnagerðargjöld af íbúðarlóðum og koma þannig til móts við húsbyggjendur með lækkun byggingakostnaðar. Stofnað var sjálfseignarfélag um byggingu almennra leiguíbúða. Einnig var samvinna við Skinney-Þinganes um byggingu íbúða á sömu forsendum. Komin er af stað vinna við byggingu þriggja íbúða í Öræfum. Áframhaldandi uppbygging í þéttbýli jafnt sem dreifbýli er ein af undirstöðum framþróunnar.
Grunnþjónusta er mikilvæg og er það sem ungt fólki horfir til við val á búsetu. Öflugt ungmenna- og íþróttastarf skiptir þar ekki síst miklu máli svo og forvarnargildið sem það hefur. Góð umgjörð er þýðingarmikill þáttur, því er mikilvægt að vinna að hönnun og skipulagi íþróttamannvirkja sem byggir á framtíðarsýn. Má þar t.d. nefna mikilvægi þess að líkamsræktarstöð verði komið fyrir í tengslum við önnur íþróttamannvirki. Að tryggja frekari þátttöku ungs fólks í stjórnsýslu sveitarfélagsins er mjög mikilvægt. Gleymum ekki því að unga fólkið í samfélaginu er nútíðin og framtíðin, það er eitt af okkar hlutverkum að búa svo um að það sé ákjósanlegur valkostur að búa hér.

Velferðarmál

Á öðru ári kjörtímabils var skrifað undir nýjan samning um áframhaldandi rekstur sveitarfélagsins á heilbrigðisþjónustu, nú þarf að huga að nýjum samningi. Eitt af markmiðum þeirrar vinnu ætti að vera langtímasamningur um þetta fyrirkomulag. Nú á dögunum var skrifað undir samkomulag um byggingu 30 rýma hjúkrunarheimilis hér á Höfn. Til viðbótar verður það verkefni bæjarstjórnar að tryggja að samhliða þessu verið byggð kapella, líkhús ásamt nauðsynlegri stoðþjónusturými. Einnig þarf að huga að rekstrahagkvæmni stofnunarinnar og því verða 4 sjúkrarými við stofnunina tekin inn í endanlega hönnun á húsnæðinu. Bygging hjúkrunarheimilis er búið að vera til meðferðar hjá bæjarstjórn allt frá því ég kom fyrst að bæjarstjórnarmálum 2006. Það er því mikið fagnaðarefni að tekist hafi að ná samkomulagi um þessa byggingu nú.
Hér að framan hefur verið farið yfir brot af þeim verkefnum stórum og smáum sem unnið hefur verið að á kjörtímabilinu og einnig verkefni sem eru framundan. Mikill metnaður er í stefnuskrá flokksins fyrir samfélagið okkar.
Jákvæðni byggir árangur því setjum við X við D á kjördag

Björn Ingi Jónsson, 1. Sæti á lista Sjálfstæðisfokksins