Það stendur mikið til hjá Kvennakór Hornafjarðar þetta vorið þar sem kórinn heldur sína 20. vortónleika þann 5.maí n.k. á Hafinu. Þema tónleikanna verður í anda kórsins þar sem eingöngu verður sungið um konur. Nokkur lög eru af hornfirsku bergi brotin og má þar m.a. nefna lag eftir Ingunni Bjarnadóttur frá Hólmi og svo ætlar kórinn einnig að frumflytja lag sem samið var í tilefni afmælisins en það heitir Syngjandi kona og er eftir stjórnanda kórsins, Heiðar Sigurðsson en textann gerði Hrefna Rún Kristinsdóttir, dóttir Snæfríðar Hlínar Svavarsdóttur sem syngur með kórnum.
En þar sem við eigum nú afmæli þá fannst okkur ekki nóg að vera bara með tónleika á Hafinu og því kom upp sú hugmynd að gaman væri að syngja í öllum félagsheimilum í sýslunni á einum og sama deginum og ákveðið var að framkvæma þetta laugardaginn 14.apríl n.k. Ekki verður um venjulega tónleika að ræða heldur ætlar kórinn og syngja nokkur lög í hverju félagsheimili og hugmyndin er sú að húsin verði opin þeim sem vilja koma og hlusta.
Áætlaðar tímasetningar eru þessar:
kl. 11:00 Fundarhúsið í Lóni
kl. 13:15 Sindrabær (komum fram strax að loknum tónleikum lúðrasveitarinnar)
kl. 14:00 Mánagarður
kl. 15:00 Holt
kl. 17:00 Hrollaugsstaðir
kl. 20:00 Hofgarður
Vonumst eftir að sem flestir sjái sér fært að koma og njóta með okkur. Frítt inn fyrir alla.