Fréttir frá Sunddeild Sindra

0
1574

Helgina 15.-19. febrúar héldum við í Sunddeild Sindra í Kópavog og þar tóku iðkendur og þjálfarar Breiðabliks á móti okkur og æft var saman í 3 daga. Fyrstu helgina í mars héldu 9 iðkendur á Hennýjarmót á Eskifirði en alls voru 80 iðkendur skráðir á mótið frá 5 félögum. Allir iðkendur Sindra 10 ára og eldri unnu til verðlauna í sínum aldursflokkum en yngri iðkendur hljóta viðurkenningu fyrir þátttöku. Sunnudaginn 18. mars héldum við okkar árlega páskaeggjamót í blíðskapaveðri. Þau tímamót áttu sér stað á þessu móti að notast við Splash skráningarkerfið. Splash skráningarforritið gerir okkur kleift að sendir úrslit á Sundsamband Íslands og með réttri dómgæslu fá tímana skráða. Þar eru tímar iðkenda síðan vistaðir inní grunn sem er aðgengilegur á netinu ásamt tímum sundmanna um allan heim slóðin er www.swimrankings.net. Þetta eru sannkölluð tímamót þar sem tímar fyrri iðkenda deildarinnar eru hvergi til og hafa í gegnum tíðina verið jafnvel vistaðir í exel- skjölum inni í einkatölvum og engum aðgengilegir því miður. Sundsambandið gerir t.d. kröfu um að fá tíma frá Unglingalandsmótunum á þessu skráningarformi eigi þeir að vistast inní þennan grunn. Svona mót er að sjálfsögðu ekki hægt að standa fyrir nema með aðkomu foreldra og annarra sjálfboðaliða og viljum við þakka þeim kærlega fyrir þeirra innlegg. Einnig voru við svo lánsöm að fá 2 foreldra til að taka dómaranámskeið á Eskifirði í tengslum við Hennýjarmótið og er þeirra aðkoma ómetanleg.

29389267_10155427370119109_7239093242295345468_nSunddeildina vantar stjórnarmann og langar mig að biðla til einhvers velunnara að bjóða sig fram í stjórn, 1 stjórnarmann vantar til að uppfylla reglur um stjórnarskipan deildarinnar, stjórnarmaður þarf ekki að vera foreldri iðkanda þó svo að hefð hafi skapast fyrir því innan Sindra. Eins vantar okkur þjálfara í deildina í haust þegar Viktoría hverfur til annarra starfa. Áhugasamir mega senda línu á sunddeildsindra@gmail.com eða hringja í undirritaða 8673757 eða Erlu Berglindi 8476634. Að lokum langar okkur að þakka fyrir þær frábæru móttökur sem við fáum frá ykkur þegar við erum á ferðinni með dósasafnanirnar okkar.

F.h. Sunddeildar Sindra
Gunnhildur Imsland