Hafnarhittingur

0
1663
DCIM100MEDIADJI_0024.JPG

Í nútímasamfélagi þar sem töluvert er um streitu, þunglyndi, kvíða og félagslega einangrun er mikilvægt að hlúa að aðstæðum sem vinna gegn þessum þáttum. Fjölskyldan og góð félagsleg tengsl er það sem hefur hvað mest vægi til að vinna gegn þessum neikvæðu þáttum. Hafnarhittingur er framlag nemenda og starfsmanna Grunnskólans til að styrkja fjölskylduna, styrkja félagsleg tengsl og bæta samfélagið sem okkur þykir flestum svo vænt um.
Á Hafnarhittingi verður boðið upp á fjölmörg tækifæri fyrir fólk á öllum aldri til að sinna áhugamálum sínum um leið og það hittir annað fólk en það umgengst dags daglega. Á sama tíma geta foreldrar haft börnin með sér og til að létta enn frekar álagið á fjölskyldum getur fólk keypt sér mat á staðnum á kostnaðarverði.
Hafnarhittingur gengur fyrst og fremst út á sjálfboðavinnu og þar leggja nemendur og starfsmenn sitt af mörkum en margir aðrir koma einnig að borðinu. Þannig verður hittingurinn sameign okkar allra. Allar hugmyndir að dagskrá eru vel þegnar og fólk hvatt til að leggja sitt af mörkum.
Þetta er fyrsti Hafnarhittingurinn en ef vel gengur þá verða fleiri eftir áramótin. Takið tímann frá þriðjudaginn 5. des kl. 17:00 – 20:00. Kíkið í Heppuskóla og íþróttahúsið og takið endilega einhvern með ykkur sem þekkir ekki vel til, talar ekki tungumálið eða bara einhvern sem þið viljið taka með.
Við hlökkum til að eiga góðar stundir með sem flestum ykkar.

Nemendur og starfsmenn Grunnskóla Hornafjarðar