Ungmennaþing 2017

0
1340

Þann 6. nóvember síðastliðinn stóð Ungmennaráð Hornafjarðar fyrir öðru ungmennaþingi sínu. Samkvæmt erindisbréfi Ungmennaráðs Hornafjarðar skal ungmennaþing haldið á ári hverju. Þingið var haldið í Nýheimum en þátttakendur þingsins voru nemendur úr 8. – 10. bekkjar Grunnskóla Hornafjarðar og nemendur Framhaldsskólans í Austur- Skaftafellssýslu og tóku um 100 ungmenni þátt. Þinginu var skipt í tvo hluta, annars vegar fyrirlestra og hinsvegar málstofur. Fyrirlestrarnir voru tveir og það voru þau Margrét Gauja Magnúsdóttir, sem talaði um hamingjuna, og Magnús Guðmundsson, sem talaði um mannréttindasamtökin Amnesty International.

23469316_2026199660959712_1017060842_o
Eftir fyrirlestrana var þátt­takendunum skipt niður í 10 hópa til þess að taka þátt í málstofum. Málstofurnar voru fimm í þetta sinn: Staðalímyndir, kynheilbrigði og mannréttindi, andleg heilsa, mannréttindi og skólamál. Þar fengu þátttakendur tækifæri til að ræða vandamál og lausnir í hverri málstofu og mynduðust líflegar umræður. Voru þátttakendur hvattir í kjölfarið til þess að skrifa niður sínar hugmyndir af vandamálum og lausnum á minnismiða sem ungmennaráð vann síðan úr. Ráðið tók hugmyndirnar saman og flokkaði þær eftir mikilvægi þeirra. Niðurstöðurnar verða síðan kynntar fyrir Fræðslu- og tómstundanefnd og reynt að koma eins mikið af þeim hugmyndum og hægt er í framkvæmd.
Ungmennaráð Hornafjarðar þakkar nemendum beggja skólanna kærlega fyrir þátttökuna og hlakkar til að halda annað þing að ári.