Fækkun einbreiðra brúa

0
1018

Undirritaður leiðir lista Flokks fólksins í Suðurkjördæmi og þar sem ég er nýr í pólitíkinni er til siðs að kynna sig.

Ég er lögfræðingur og mörg ykkar gætu kannast við mig þar sem ég hef víða unnið í kjördæminu, þannig starfaði ég í mörg ár bæði á sýslumannsembættunum í Keflavík og síðar á Selfossi og var sýslumaður og lögreglustjóri í Vestmannaeyjum í 16 ár. Þá hef ég verið formaður yfirkjörstjórnar Suðurkjördæmis í nær 20 ár.

Vegna alls þessa tel mig þekkja töluvert til þessa svæðis og vil leggja mitt af mörkum til að gera góðar byggðir betri.

Ég brenn í skinninu til að fá að takast á við að sinna því sem þarf að færa til betri vegar. Ég er tilbúinn til að leggja mitt af mörkum til hagsbóta fyrir Suðurkjördæmi og landið allt, ef ég næ kjöri inn á alþingi okkar íslendinga.

Um daginn átti ég yndislega daga á Höfn og hitti marga á staðnum, nokkra þekkti ég en öðrum kynntist ég.

Ég heyrði á fólki hvað brann helst á.

Eftir að hafa ekið þessa leið fram og til baka skil ég vel áhyggjur ykkar af þessum 19 einbreiðu brúm á leiðinni. Þetta er verkefni sem þarf að vinda sér í og auðvitað líka stytta leiðina með brú á Hornafjarðarfljót. Ég treysti mér vel í það verkefni að liggja í þessum málaflokki enda hef ég alið minn aldur í stjórnsýslunni mestmegnis. Hér þarf þrautseigju og atorku.

Vegakerfið okkar er á þolmörkum vegna mikils ferðamannastraums og þar þarf að girða sig í brók.  Þannig þarf jafnframt að byggja upp aðbúnað við ferðamannastaði um allt land sem eru margir að sökkva í leðju vegna ágangs. Í þessu sambandi þarf einnig að efla almenna löggæslu og fjölga lögreglumönnum.

Flokkur fólksins er umbótaflokkur sem lætur sig varða kjör þeirra sem minnst mega sín. Ég held að full þörf sé á rödd okkar á alþingi sem talar fyrir okkar fólk og um þau góðu stefnumál og veitir stjórnvöldum aðhald í þeim, eða tekur þátt í stjórn sem það gerir.

  Helstu markmið flokks fólksins eru :

  • Að hækka persónuafslátt.
  • Afnema frítekjumark og gera öldruðum og öryrkjum, sem geta unnið kleift að vinna með okkur.
  • Grunnheilbrigðisþjónusta verði gjaldfrjáls.

Landið allt þarf að vera í byggð og allir þurfa að eiga rétt á helstu grunnþjónustu í sinni heimabyggð !

X – F

Karl Gauti Hjaltason oddviti F listans í Suðurkjördæmi.