Fjölgum hjúkrunarrýmum – leiðin er fær

0
1448

Biðlistar í hjúkrunarrými eru að lengjast og enn er langt í land með að útrýma fjölbýlum af hjúkrunarheimilum. Við það verður ekki unað.  Framsóknarflokkurinn vill að eldra fólki sé tryggt áhyggjulaust ævikvöld. Við viljum að byggðar séu 300 þjónustuíbúðir og hjúkrunarrými árlega um land allt og að lífeyrisjóðirnir fjármagni þær framkvæmdir.

Staðan á Hornafirði

Það er hlutverk ríkis og sveitarfélaga að fjármagna framkvæmdir við uppbyggingu hjúkrunarrýma og endurbætur sem felast í breytingu á rýmum. Fjármögnun ríkisins er að hluta til beint úr ríkissjóði og að hluta í gegnum Framkvæmdasjóð aldraðra. Þrátt fyrir bætta afkomu ríkissjóða þá hefur ríkinu ekki borið gæfa til að taka á þessum vanda. Það er hreinlega óþolandi að aldraðir einstaklingar sem hafa verið metnir í hjúkrunarrými þurfi að bíða svo mánuðum, jafnvel árum skiptir að komast inn á heimili. Alltof stór hluti þessara einstaklinga bíða á Landspítalanum eða í sjúkrarýmum heilbrigðisstofnanna sem eru mun dýrari en hjúkrunarrými fyrir utan það að þau nýtast að sjálfsögðu ekki fyrir aðra veika einstaklinga á meðan!

Staðan á Hornafirði er sú að allt frá árinu 2003 höfum við beðið þess að komast á framkvæmdalista ríkisins til að fá fjármagn til framkvæmda. Nýbygging er nauðsynleg til þess að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til húsnæðis sem þessa í dag.

Tölum í lausnum

Framsókn vill stórátak í byggingu á þjónustuíbúðum og hjúkrunarrýmum fyrir aldraða. Við viljum byggja 300 nýjar íbúðir á ári fyrir aldraða næstu árin. Biðlistar eru langir og munu lengjast verði ekki gripið til aðgerða. Framsókn vill leita eftir samstarfi við lífeyrissjóðina um að fjárfesta fyrir minnst 10 milljarða árlega í hagkvæmum þjónustu- og hjúkrunaríbúðum fyrir aldraða í þeim sveitarfélögum þar sem þörfin er brýnust. Lífeyrissjóðirnir þurfa fleiri fjárfestingarkosti og gæti þessi leið verið samfélagslega hagkvæm.

Fleiri aðgerðir nauðsynlegar

  • Framsókn vill afnema frítekjumarkið af atvinnutekjum. Margir þeir sem eru komnir á efri ár og eiga rétt á lífeyri frá almannatryggingum vilja halda áfram að vinna. Fólk á rétt á að hafa val. Þeir sem vilja og geta unnið eiga að fá tækifæri til þess. Atvinnuþátttaka aldraðra leiðir til betri heilsu og heilbrigðara samfélags.
  • Framsókn vill einnig setja 1 milljarð strax í aukna niðurgreiðslu á tannlæknakostnaði aldraðra. Ríkið verður að standa við loforð um að greiða niður 75% af kostnaðinum. Gjaldskrá um endurgreiðslu aldraðra þarf að uppfæra svo hún endurspegli hækkanir síðustu ára.

Við höfum forsendur til að framkvæma þessi atriði. Afgangur er af ríkisrekstri og sveigjanleikinn er til staðar. Aldraðir eiga að geta lifað eðlilegu, áhyggjulausu lífi og fá að taka þátt í samfélaginu. Getum við ekki öll verið sammála um það?

 

Silja DoggSilja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður 2. sæti á lista Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi.

 

 

Asgerdur Katrin GylfadottirÁsgerður K. Gylfadóttir, hjúkrunarstjóri og bæjarfulltrúi 3. sæti á lista Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi.