Stefán Sturla les úr ný útkominni bók

0
2427

Föstudagshádegin í Nýheimum hafa hafið göngu sína eftir sumarhlé. Á morgun föstudaginn 13. mun Stefán Sturla, sem margir Hornfirðingar kannast við, lesa úr ný útkominni spennusögu sinni „Fuglaskoðarinn“, segja frá tilurð bókarinnar og árita og selja bókina á staðnum.
Stefán Sturlu þarf vart að kynna fyrir Hornfirðingum. Hann kom hingað ungur maður á vertíð og ílengdist. Hann hóf sambúð með Maríu Moritz og eignaðist með henni tvær dætur. Stefán Sturla segir sjálfur að hann sé „næstum“ Hornfirðingur. Árið 1939 hafði afi hans Valdimar Ólafsson bátasmiður og fjölskylda sem taldi konu og sex börn ákveðið að taka sig upp frá Hvallátrum á Breiðafirði og flytja til Hafnar og hefja þar búskap. Hann veiktist hins vegar af lungnabólgu áður en fjölskyldan lagði í þetta langa ferðalag og dó af veikindum sínum eftir stutta legu. Örlögin hafa hins vegar leitt Stefán til Hornafjarðar. Hann hefur komið nokkrum sinnum síðustu árin og leikstýrt samvinnuverkefnum leikfélagsins, FAS og Tónskólans en er nú ráðinn kennari í FAS við Lista- og menningar svið skólans sem er ný valbraut.
Stefán Sturla býr nú með konu sinni Petru Högnäs og tveimur börnum þeirra í Vasa í Finnlandi þar sem hann hefur unnið við leik og leikstjórn sl. 11 árin. Síðastliðin tvö ár hefur hann jafnframt starfað með Rauða krossi Finnlands við móttökustöðvar fyrir flóttafólk.
Fuglaskoðarinn er þriðja bók Stefáns en áður hafa komið út tvær barnabækur, Trjálfur og Mimmli árið 2000, Alína, tönnin og töframátturinn árið 2007.
Fuglaskoðarinn er æsispennandi saga um dularfullan dauðdaga ungs manns suður með sjó sem er hugfanginn af fuglum. Við rannsókn málsins kemur í ljós að ekki er allt með felldu í fortíð piltsins.
Rannsóknarlögreglukonunnar Lísu og teymi hennar bíður flókið púsluspil og þau fletta ofan af vafasömum flötum samfélagsins suður með sjó.
Þetta er fyrsta bókin um líf og störf lögreglukonunnar Lísu og aðstoðarfólks hennar og aldrei að vita nema höfundurinn sendi frá sér framhald í fyllingu tímans.
Verið velkomin á föstudagshádegi í Nýheimum á morgun klukkan12:00