Mikil menningarhelgi framundan

0
1884
Frá sýningu Hornfirska Skemmtifélagsins árið 2015 "Swingin sixties"

Eftir velheppnaða Vírdóshelgi verður ekkert lát á tónleikum í haust. Helgin 6.-8. október verður viðburðarrík.
Föstudagskvöldið 6. október mun hljómsveitin Reykjavík smooth jazz band spila á Hótel Höfn en þar um borð er einn af eigendum hótelsins Ólafur Steinarsson ásamt félögum sínum en þeir spila “jazz rock crossover”. Meðlimir sveitarinnar eru: Guðlaugur Þorleifsson trommur, Cetin Gaglar slagverk, Árni Steingrímsson gítar, Bolli Þórsson þverflauta, Þórarinn Sveinsson hljómborð og Ólafur Steinarsson á bassa. Hafa þeir verið að grautast í tónlist í fjöldamörg ár. Ólafur hefur unnið með þeim í öðrum verkefnum en dró þá alla saman fyrir um tveimur árum. Þórarinn Sveinsson gerði nú garðinn frægan með böndum frá Egilsstöðum á árum áður en hann er uppalinn fyrir austan. Guðlaugur hefur spilað mikið með big bandi í Reykjavík en faðir hans er Þorleifur í Lúdó og Stefán – hann ólst upp við tónlist allt sitt líf og hefur verið að sækja tíma hjá Gulla Briem. Árni Steingrímsson stundar núna nám við FHÍ í gítarleik. Sjálfur spilaði Ólafur mikið á árum áður og var í Jazzdeild FHÍ en tók svo aftur upp hljóðfærið fyrir 10 árum síðan. Með bandinu hefur spilað tyrkneskur slagverksleikari sem er búsettur hér á landi, Cetin Gaglar.
Laugardagskvöldið 7. október verður Hornfirska Skemmtifélagið með frumsýningu á One hit wonder á Hafinu og verður skemmtunin samansett eins og áður af kvöldverði sem Kristján Guðnason kokkar, söngskemmtun og dansleik sem hljómsveitin KUSK sér um. Þetta er 16. sýning skemmtifélagsins og flytja hornfirskir listamenn lög með hljómsveitum sem áttu aðeins einn stóran smell.
Sunnudaginn 8. október verða síðan kaffitónleikar á Hótel Höfn þar koma fram Guðrún Birgisdóttir þverflauta, Snorri Sigfús Birgisson píanó, Gunnar Hrafnsson bassi og Óskar Kjartansson trommur. Ætla þau að flytja okkur þekkt verk úr klassíska heiminum og sveifla aðeins til, eins og þau segja , til að láta sígilt og popp vingast. Boðið verður upp á kaffi og létt meðlæti á tónleikunum.
Ekki er lát á tónleikum því að helgina á eftir eða laugardaginn 14. október ætlar Karlakór Eyjafjarðar að heimsækja okkur og syngja eina tónleika.