Síðastliðinn laugardag, þann 16. september, á Degi íslenskrar náttúru fór fram viðamikil strandhreinsun á Breiðamerkursandi. Ákveðið var að byrja á hreinsun strandlengjunnar frá Reynivallaós í austri og að Jökulsá í vestri sem varð hluti að Vatnajökulsþjóðgarði í sumar.
Þátttaka var góð, en um 50 vaskir sjálfboðaliðar mættu og létu til sín taka og þökkum við þeim kærlega fyrir komuna. Mikil ánægja var meðal fólks, enda var veðrið sérlega gott þennan dag og það er gefandi að leggja sitt af mörkum fyrir náttúruna. Við eigum aðeins eina jörð og mikilvægt að við göngum vel um hana.
Ófá fyrirtæki í sveitarfélaginu lögðu hönd á plóg, og fá þau bestu þakkir fyrir. Það er óhætt að segja að við hefðum aldrei getað safnað öllu því rusli sem var á fjörunum ef ekki hefði verið fyrir þau tæki og tól sem fyrirtækin lögðu til. Vatnajökull Travel og Glacier Adventure sköffuðu bíla og mannskap yfir daginn. Einar Björn frá Jökulsárlóni ehf. og eigendur Blue Iceland mættu með öflugar vinnuvélar ásamt því leggja til mannskap. Blái herinn, Vinir Vatnajökuls og Skinney-Þinganes studdu einnig við verkefnið. Að lokum sáu Íslenska Gámafélagið og Funi um að ruslið kæmist í réttan farveg og lánuðu gáma til verksins sem ruslið var flokkað í. Starfsmenn Vatnajökulþjóðgarðs, Náttúrustofu Suðausturlands og Nýheima mynduðu verkefnastjórn og sáu um skipulag í tengslum við strandhreinsunina.
Það er vitað mál að strendur jarðarinnar eru fullar af rusli. Landvernd hefur staðið fyrir átakinu Hreinsum Ísland undanfarið, en þar gefst almenningi tækifæri á að leggja sitt af mörkum til þess að hreinsa strandlengju Íslands. Megnið af ruslinu sem hreinsað var af Breiðamerkursandi á uppruna sinn frá sjávariðnaðinum. Mikið var um óendurvinnanlegt efni, svo sem gamla kaðla og net, en einnig var mikið magn af netakúlum og hringjum, sem mun mestmegnis verða endurnýtt hjá Veiðafæragerð Skinneyjar-Þinganess.
Einnig var mikið magn af plasti, sem augljóslega hafði legið í fjörunni í langan tíma og var jafnvel mosagróið að innan. Mikið af þessu rusli hefði verið hægt að endurvinna ef það hefði ekki endað í sjónum. Plast brotnar aldrei fyllilega niður í náttúrunni, og endar það sem örfínar plastagnir sem berast í grunnvatnið, sjóinn og dýralífið. Það er því okkur öllum fyrir bestu að draga úr plastnotkun og flokka og endurvinna það plast sem fer frá okkur. Á melum við ströndina var mikið af járni frá landbúnaðartækjum og hvetjum við alla íbúa og ekki síður þá sem byggja afkomu sína af náttúru þessa lands að huga að því sem við látum frá okkur.
Breiðamerkursandur verður í framhaldinu merktur inná Íslandskort átaksins á HreinsumIsland.is og er því fyrsta ströndin á Suðausturlandi sem fer inná kortið.
Verkefnastjórn