Vatnajökulsþjóðgarður, Sveitarfélagið Hornafjörður og stofnanir Nýheima í samstarfi og með stuðningi landeigenda og fyrirtækja á Hornafirði standa fyrir strandhreinsun á degi íslenskrar náttúru, laugardaginn 16. september. Í ár ber Alþjóða strandhreinsunardaginn upp á sama dag og er því við hæfi að tileinka daginn strandlengju sveitarfélagsins og hafinu.
Ætlunin er að hreinsa afmarkað svæði á Breiðamerkursandi frá Reynivöllum að Kvíármýrarkambi. Hluti af því svæði er nú innan Vatnajökulsþjóðgarðs eftir stækkun garðsins í sumar og nær þjóðgarðurinn nú milli fjalls og fjöru.
Hreinsunin stendur yfir frá 10:00 – 16:00 og lýkur með grillveislu í boði Nettó.
Viljum við hvetja íbúa og alla sem vettlingi geta valdið til að taka þátt í verkefninu því margar hendur vinna létt verk. Nauðsynleg ílát til ruslatínslu verða á staðnum á meðan birgðir endast. Einnig verða gámar á svæðinu og allt endurvinnanlegt og endurnýtanlegt efni verður flokkað frá því sem þarf að urða. Boðið verður upp á rútuferðir frá Höfn og er brottför frá sundlauginni kl. 9. Þeir sem kjósa að mæta á einkabílum geta hitt umsjónarmenn hreinsunarinnar við Hrollaugshóla, rétt vestan við Fellsá. Einnig má hafa samband við umsjónarmenn þegar fólk mætir á Breiðamerkursand, en ekki er skilyrði að vera með allan tímann (sjá símanúmer í auglýsingu). Þeir sem ekki komast þennan dag eru hvattir til hreinsunarátaks í sínu nærumhverfi.
Þeir sem geta lagt fram vinnutæki eins og dráttavélar, fjórhjól, kerrur, vagna o.fl. mega setja sig í samband við Rósu Björk í síma 8424355.
Fylgjast má með viðburðinum á Facebook, Strandhreinsun á Breiðamerkursandi – Dagur íslenskrar náttúru.
Við viljum benda áhugasömum á að þátttakendur bera ábyrgð á eigin öryggi og undirbúningi fyrir viðburðinn. Börn eru ætíð á ábyrgð foreldra/umsjónarmanna. Nánari upplýsingar um strandhreinsanir má finna á vefnum hreinsumisland.is.
Eftirfarandi atriði er svo gott að hafa í huga fyrir strandhreinsunina:
- Gott er að hafa með sér vinnuhanska eða vettlinga;
- Takið með ykkur vatnsflöskur, nesti og fjölnota drykkjarílát
- Takið með ykkur fjölnota burðarílát (poka, fötur)
- Sólarvörn ef haustsólin skín!