Um helgina fór fram fyrsta tónlistarhátíðin Vírdós, sem er hátíð óvenjulegra hljóðfæra en þar var boðið upp á ýmsa viðburði tengt tónlist og hljóðfærasmíði.
Það hafði blundað í mér lengi að búa til tónlistarhátíð á Hornfirði sem hefði ákveðið þema eins og Hammondhátíð á Djúpavogi. Með tilkomu Fab Lab smiðjunnar varð til ákveðin þekking í að búa til ýmis skrítin og skemmtileg hljóðfæri. Sumir tónlistarmenn sem höfðu aðstöðu í húsinu fóru einnig að smíða sjálfir eða í tengslum við nám sem þeir stunduðu í smiðjunni. Okkur langaði líka að tengjast öðru fólki víðsvegar af landinu sem hefði áhuga á hljóðfærasmíði.
Í kjölfarið ákvað ég að nefna það við Guðrúnu Sturlaugsdóttur að ég vildi stofna slíka hátíð, hún hvatti mig til þess sækja um styrk hjá SASS og boltinn fór að rúlla. Eftir langa leit að nafni fékk hátíðin nafnið Vírdós. Nafnið kemur frá niðursuðudós sem er búið að breyta í gítar og einnig tenging við enska orðið weirdos.
Ég vissi að ég myndi ekki geta þetta einn og fékk því Tjörva Óskarsson með mér varðandi skipulag og framkvæmd en hann hefur mikla reynslu með að vinna með hljóð og er einnig raftónlistarmaður.
Vírdós hófst á fimmtudeginum á Jóni ríka í Hólmi en þar tókum við á móti áhugahljóðfærasmið frá Keflavík sem heitir Þorkell Jósef Óskarsson og héldum tónlistar djamm um kvöldið.
Á föstudeginum hélt Þorkell Jósef svo vinnustofu í Vöruhúsinu þar sem hann spjallaði um hljóðfærasmíði sína og menn fengu að prufa hina ýmsu gítara. Um kvöldið voru svo haldnir tónleikar í Skreiðarskemmunni en þar spiluðu Spaghettibandið, Vibrato Blues Band, Subminimal og Misty. Það voru ekki margir en stemningin var mögnuð og Skreiðarskemman er ótrúlega skemmtilegur tónleikastaður með mikinn karakter.
Á laugardeginum héldum við hljóðfærasýningu í Nettó og sýndum heimasmíðuð hljóðfæri og gítarmagnara.
Um kvöldið héldum við svo tónleika og ball á nýopnuðum skemmtistað, Hafinu. Í byrjun tónleikanna hituðu hornfirskir tónlistarmenn upp með því að spila á slide gítar og önnur hljóðfæri. Síðan spilaði Pétur Ben og bauð upp á frábæra tónlistar upplifun. Eftir honum komu svo Föstudagslögin, Stefán í Dimmu og Andri gítarleikari. Þeir voru alveg magnaðir og heilluðu salinn upp úr skónum. Eftir tónleika steig hljómsveitin Horny Stones á svið og spilaði fyrir dansi. Frábær mæting var á tónleikana og ballið en hátt í 200 manns mættu og skemmtu sér vel.
Okkur Tjörva langar þakka öllum þeim sem komu að VÍRDÓS, tónlistarmönnunum, þeim sem hjálpuðu til og fyrirtækin sem veittu styrki. Sérstakar þakkir fá SASS, Skinney-Þinganes, Hótel Höfn, Sveitarfélagið Hornafjörður, Hafið, Jón ríki, Nettó og Efnalaug Dóru. VÍRDÓS er komið til að vera, áfram hornfirskt tónlistarlíf!
Villi Magg