25 samningar um atvinnutengda starfsemi veturinn 2021-2022

0
435

Þann 9. júlí 2021 var auglýst eftir umsóknum um gerð samninga um íshellaferðir og jöklagöngur á Breiðamerkurjökli (vestan og austan Jökulsárlóns), Falljökli/Virkisjökli og Skeiðarárjökli. Samkvæmt lögum um Vatnajökulsþjóðgarð er óheimilt að reka atvinnutengda starfsemi í þjóðgarðinum án tímabundins nýtingarsamnings um slíka starfsemi. Í samningnum skal setja þau skilyrði fyrir starfseminni sem talin er þörf á, m.a. vegna verndar umhverfis og öryggis gesta.
Verkefnið er þróunarverkefni og hluti af innleiðingu atvinnustefnu Vatnajökulsþjóðgarðs. Mesta umfang atvinnutengdrar starfsemi innan þjóðgarðsins er hér á suðursvæði og því hefur meginþorri vinnunnar farið fram hér. Þetta er annar veturinn sem viðlíka samningar eru gerðir. Samningar eru gerðir fyrir eitt tímabil í senn. Mikið hefur safnast í reynslubanka þjóðgarðsins og munu samningarnir bæta og efla umsóknarferlið og samningagerð vegna atvinnutengdrar starfsemi í þjóðgarðinum til framtíðar.
Alls bárust 26 umsóknir um samninga um íshellaferðir og jöklagöngur veturinn 2021 – 2022 frá fyrirtækjum, á þeim fjórum svæðum sem auglýst voru. Afgreiðslu umsókna lauk um miðjan október. Eitt fyrirtæki dró umsókn sína til baka. Öll tuttugu og fimm fyrirtækin með virka umsókn töldust uppfylla skilyrði til íshellaferða og jöklagangna að loknu mati á umsóknargögnum og fengu þau öll jákvætt svar um gerð samnings við þjóðgarðinn. Tuttugu og þrjú þeirra höfðu áður gert samning við þjóðgarðinn á síðasta tímabili, en tvö ný fyrirtæki bættust við. Sautján fyrirtækjanna eru með lögheimili í Sveitarfélaginu Hornafirði.
Samningar um íshellaferðir og jöklagöngur renna út 30. apríl n.k. en unnið er að auglýsingu fyrir umsóknir um starfsemi á og við skriðjökla á suðursvæði sumarið 2022.
Við, þjóðgarðsverðir á suðursvæði, fögnum yfirstandandi þróunarvinnu tengdri atvinnulífi innan Vatnajökulsþjóðgarðs með það að markmiði að veita framúrskarandi þjónustu með gæði og öryggi í fyrirrúmi, í sátt við náttúru og samfélag. Öllum þeim sem hafa tekið þátt í eru færðar góðar þakkir fyrir sitt framlag.

Hrafnhildur Ævarsdóttir og
Steinunn Hödd Harðardóttir,
þjóðgarðsverðir á suðursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs