Uppskeruhátíð mfl. kk og kvk var haldin laugardaginn 23. sept sl í Pakkhúsinu
Maturinn var ekki af verri endanum frekar en fyrri daginn því boðið var upp á hægeldaðan nautahrygg með trufflu kartöflugratíni og chilli bearnaise og súkkulaði gott í eftirrétt.
Allmargar stelpur og strákar voru að spila sinn fyrsta leik fyrir mfl. og fengu þau öll rós að launum. Veittar voru viðurkenningar að venju og þessir leikmenn hlutu þær:
Markahæstu leikmenn:
Mate Paponja og Chestley Ashley
Efnilegastu leikmenn:
Kristófer Daði Kristjánsson og Guðrún Ása Aðalsteinsdóttir
Fyrirmyndarleikmenn:
Óskar Guðjón Óskarsson og Shameeka Fishley
Besti félaginn (val leikmanna):
Mate Paponja og Alexandra Hearn
María Hjördís Karlsdóttir fékk viðurkenningu fyrir að hafa spilað 50 leiki fyrir Sindra.
Stelpunum gekk ágætlega í sumar og voru aldrei í neinni fallbaráttu. Vefurinn fotbolti.net spáði þeim neðsta sætinu og því má með sanni segja að stelpurnar hafi gefið þeim miðli langt nef þar sem þær enduðu tímabilið í 7. sæti. Í sumar voru 4 erlendir leikmenn með stelpunum, 3 frá Bandaríkjunum og 1 frá Bretlandi. Þessar 4 stelpur hafa verið að spila í háskólabolta erlendis og gátu hinar því lært töluvert af þeim, sem á vonandi eftir að nýtast í framtíðinni ef þær ákveða að halda áfram í fótbolta. Um mitt sumar þá bættist 5 erlendi leikmaðurinn við en sú kom frá Þýskalandi. Hún var vinkona einnar af bandarísku stelpunum og hentaði koma hennar mjög vel því Inga Kristín var að fara utan í skóla um svipað leyti. Með liðinu spiluðu líka 4 íslenskar aðkomustelpur en þær áttu ýmist kærasta hér á Hornafirði eða ættingja og vini. Nokkrar af okkar heimastelpum voru í skóla annarsstaðar en komu heim í sumar og spiluðu fyrir Sindra. Margar af heimastelpunum eru líka mjög ungar en þrátt fyrir það virtist liðið smella vel saman og Ingva Ingólfssyni þjálfara tókst að stjórna þeim með ágætum og þökkum við honum vel fyrir.
Strákunum gekk ekki jafn vel og vonast hafði verið eftir. Þeir voru í fallbaráttu í allt sumar og enduðu í neðsta sæti sem þýðir 3.deild að ári. Í byrjun sumars var skipt um þjálfara og Samir Mesetovic lét af störfum og Sindri Ragnarsson tók við. Í sumar voru 4 erlendir leikmenn með strákunum. 3 frá Króatíu og 1 frá Trinidad and Tobago. Einnig spiluðu 2 íslenskir aðkomustrákar með liðinu í sumar og kom það vel út. Um mitt sumar bættist svo 1 Króati í hópinn ásamt því að „gamlir“ Sindramenn komu aftur heim og spiluðu fyrir félagið. Liðið okkar samanstendur af nokkrum reynsluboltum ásamt ungum og efnilegum strákum sem koma til með að stækka hópinn töluvert ef þeir æfa vel áfram.
Eins og allir vita sem einhverntímann hafa mætt á völlinn þá má sjá yngri iðkendur endasendast framm og til baka meðfram hliðarlínunni, hlaupandi á eftir boltum, tilbúin að kasta þeim til liðsmanna þegar það á við. Þetta eru svokallaðir boltasækjarar og þeir hafa verið ófáir í sumar og staðið sig glimrandi vel. Meira að segja hafa þeir staðið sig svo vel að þessi stóru lið sem hingað komu í sumar höfðu orð á því að svona vel vakandi og virka boltasækjara hefðu þeir aldrei séð. Þessum krökkum þökkum við vel unnin störf, því umgjörð leikja hefði ekki verið söm án þeirra.
Til þess að hægt sé að halda úti mfl. flokkum þá þurfa margar hendur að leggjast á eitt og þar koma sjálfboðaliðarnir sterkir inn. Það hafa verið ansi mörg handtök sem hafa verið unnin fyrir hvern einasta leik ásamt því sem gera þarf á leikjunum sjálfum. Því viljum við þakka öllum þeim sem stutt hafa við bakið á félaginu í sumar kærlega fyrir. Það er gott að eiga ykkur að.
Með kærri þökk fyrir skemmtilegt sumar.
Stjórn knattspyrnudeildar mfl Sindra.