Af og til, á liðnum árum, hef ég velt fyrir mér örnefninu, sem í daglegu tali kallast Álaugarey.
Í skipulagi sveitarfélagsins Hornafjarðar er eyjan nefnd Álögarey. Eyjan er nú orðin landföst eftir viðamiklar hafnarframkvæmdir. Þeim framkvæmdum var m.a. lýst í frétt sem birtist á forsíðu Þjóðviljans 27. maí 1966. Fréttina skrifaði Þorsteinn L. Þorsteinsson og var teikning hans meðfylgjandi. Teikningin lýsir vel aðstæðum eins og þær voru áður en hafskipabryggjan og frystihúsið á Krossey voru byggð með tilheyrandi landfyllingum. Í þessari frétt er eyjan einnig nefnd Álögarey.
Hvernig stendur á þessum ólíku útgáfum örnefnisins?
Fyrir nokkrum dögum síðan rakst ég á umfjöllun Matthíasar Þórðarsonar í Árbók hins íslenska fornleifafélags um örnefnið Álöfarey. Um var að ræða grein sem að öðru leyti fjallaði um rannsóknir hans á nokkrum forndysjum. Matthías skrifaði meðal annars:
Dys í Álöfarey í Hornafirði.
“Í febrúarmánuði 1934 fundust mannsbein við vegargerð í Álöfarey, sem er skammt fyrir austan verzlunarstaðinn Höfn í Hornafirði; var hreppstjóranum, Þorleifi Jónssyni í Hólum, skýrt frá fundinum, og simaði hann mér skýrslu um hann 16. s. m. — Ey þessi hefir ekki verið byggð, svo menn viti, enda er hún lítil, og engin munnmæli voru um neina dys þarna. Eyin er nú ætið nefnd Álögarey, og svo er nafn hennar stafað á uppdrætti herforingjaráðsins frá 1905, en vitanlega er hið upphaflega nafn Álöfarey; hefir eyin verið kennd við konu með því nafni, sennilega einmitt þá hina sömu, er nú sást, að hér hafði verið grafin. — Álöf er sama og Ólöf.”
Sjálfsagt eru ekki allir sammála þessum skýringum Matthíasar. En hvað sem því líður eru komin þrjú eða jafnvel fjögur tilbrigði við örnefnið: Álaugarey, Álögarey, Álöfarey og Ólöfarey – þannig að ekki einfaldaðist málið.
Finnast kannski fleiri tilbrigði?
Sturlaugur Þorsteinsson, verkfræðingur