Nú hefur Sunddeild Sindra lokið vetrarstarfi og er rétt að gefa lesendum Eystrahorns innsýn í starfið.
Sumarið 2016 var einn keppandi frá Sindra sem tók þátt í Sumarhátíð UÍA. Í nóvember átti að venju að halda á Bikarmót UÍA á Djúpavogi og hópur barna var skráður á það mót en sökum dræmrar þátttöku annars staðar af Austfjörðum var mótið blásið af. Jólakortin voru borin í hús ásamt fimleikadeildinni í desember. Hápunktur vetrarins var síðan þegar Hrafnhildur Lúthersdóttir, Jacky (landsliðsþjálfari) og Ingi Þór heimsóttu okkur með frábærum æfingabúðum helgina 10.-12. febrúar sem voru vel sóttar af sundfólkinu okkar. Þessa helgi lék veðrið við okkur á laugardeginum sem gerði allt sund svo miklu auðveldara og skemmtilegra. Einnig voru fyrirlestrar, fundir og styrktaræfingar í íþróttahúsinu. Frábær og vel heppnuð helgi í alla staði allir sáttir og þreyttir að helgi lokinni. Farið var á Hennýjarsundmótið á Eskifirði í mars þar sem 8 börn frá Sindra tóku þátt og komu heim með 4 gull, 2 silfur og 1 brons. Frábær árangur það. Einnig voru 5 börn sem fengu þátttökupening. Innanfélagsmót Sindra var haldið 26. mars þar sem hefð er fyrir því að allir séu leystir út með páskaeggi enda gengur þetta mót oftast undir nafninu páskaeggjamót Sindra og haldið í kringum páska. Vormót Neista var síðan haldið 30. apríl síðastliðinn. Dósasöfnun deildarinnar var á sínum stað og viljum við þakka Hornfirðingum fyrir góðar móttökur og velvild í okkar garð þegar við erum á ferðinni. Fatasundið er líka alltaf vinsælt og reynt að hafa það 2-3 svar yfir veturinn. Vetrinum var svo slúttað með dósasöfnun og samveru á fimmtudeginum 25. maí, börnin fengu þátttökupening fyrir veturinn og Arena sundpoka ásamt því að veittar voru eftirfarandi viðurkenningar. Besta ástundun kom í hlut Alexöndru Hernandez, besti félaginn Thelma Björt Gunnardóttir, mestur framfarirnar Mateja Nicoletic og sundmaður ársins Magni Snær Imsland. Vonum við að fleiri börn vilji slást í hópinn með okkur næsta vetur og minnum á opna viku sem er í byrjun haustannar þar sem börnin geta komið og prófað. Sjáumst í sundlauginni.
f.h. sunddeildar
Gunnhildur Imsland