10 ára afmæli Sundlaugar Hafnar

0
1535

Sundlaug Hafnar fagnar 10 ára afmæli sínu á sumardaginn fyrsta, 25. apríl. Viljum við, starfsmenn sundlaugarinnar, bjóða bæjarbúum, nærsveitungum og að sjálfsögðu ferðamönnum í afmælisveislu til að marka þessi tímamót. Afmælis­veislan byrjar kl. 10:00 fimmtudaginn 25. apríl og stendur til kl. 17:00. Allir fá frítt í sund þar sem gestum er boðið uppá kaffi og köku og djús fyrir börnin. Þá mun fara fram opnun á ljósmyndasýningu eftir Hornfirðinginn Atla Scheving þar sem þema sýningarinnar eru jöklar og náttúra Hornafjarðar. Börnin munu skemmta sér í sundlaugagarðinum eins og ávallt en þennan dag munu þau einnig geta notið hoppukastala sem komið verður fyrir í sundlaugagarðinum.
Sundlaug Hafnar var tekin í notkun í nýjum húsakynnum í apríl 2009. 25×8,5 metra sundlaug, gufubað, vaðlaug fyrir börnin sem er þó jafn vinsæl hjá fullorðnum, tveir heitir pottar og nú á dögunum var tekin í notkun nýr kaldur pottur sem nýtur mikilla vinsælda. Sundlaugin er við aðalgötu bæjarins þar sem ferðamenn koma auga á rennibrautir sundlaugarinnar og koma iðulega í heimsókn einungis til að skoða hvað sundlaugin hefur uppá að bjóða. Algengt er að ferðamenn reki upp stór augu þegar þeir sjá út um glerveggina þessar fallegu laugar og rennibrautir í þessum litla bæ, og algengt er að ákvörðun um að skella sér í sund gerist þar á staðnum. Einnig er algengt að ferðamenn haldi að bygging sundlaugarinnar sé upplýsingamiðstöð.
Orðspor Sundlaugar Hafnar skiptir okkur miklu máli. Lagt er mikið uppúr því að hlusta á fastakúnna og erlenda gesti og bregðast við ef eitthvað má betur fara. Í vetur var farið í endurbætur á heitapottum sundlaugarinnar þar sem erfitt var að halda uppi hita í þeim á köldustu dögum vetrarins. Var einnig byggður nýr pottur sem leysti af kalda karið þegar augljóst var að vinsældir þess var að aukast. Vaðlaugin er án efa með bestu vaðlaugum á landinu þar sem lítil börn geta buslað með foreldrum sínum og eldra fólk getur dottað og sólað sig á góðviðrisdögum. Gert er ráð fyrir að fara í endurbætur á vaðlauginni næsta haust. Sundiðkun er rík í sögu Íslendinga og er sundlaugin okkar partur af lífi margra Hornfirðinga. Margir heimamenn telja Sundlaug Hafnar hafa það fram yfir aðrar sundlaugar hve hlý og notaleg hún er. Það eru hiti í gólfum og engir opnir gluggar í búningsklefunum eða gegnumtrekkur.
Án efa spilar Tripadvisor stórt hlutverk í vinsældum sundlaugarinnar. Þar nota notendur kommentakerfi síðunnar og gefa fyrirtækjum einkunn eftir því hvernig upplifun notenda er og hvort fyrirtæki uppfylli væntingar þeirra. Sundlaug Hafnar er í efsta sæti í flokknum afþreyingarfyrirtæki á svæðinu. Flestar umsagnir eru jákvæðar þar sem rauði þráðurinn er hve falleg sundlaugin er, hve hreint allt er, starfsfólk sé vinalegt, hvað margt er í boði og að verðið sé mjög sanngjarnt. Erum við mjög stolt af þessum árangri og leitumst við að gera enn betur í framtíðinni.

Með afmæliskveðjum
Starfsfólk Sundlaugar Hafnar