Opnun á vinnustofu í Gamla sláturhúsinu

0
2842
Sigurgeir Thoroddsen jöklaleiðsögumaður klippti á borðann

Þann 10. ágúst síðastliðin var opnun á vinnustofu Evu Bjarnadóttur og Peters Ålander í Gamla Sláturhúsinu á Fagurhólsmýri í Öræfum.
Opnunin var gjörningur þar sem tímarnir fengu að mætast. Eva og Peter tóku við gömlu sláturhúsi Öræfinga, byggðu 1958, sem hafði staðið yfirgefið síðan vinnsla hætti.
Tökum við yfir húsið eða húsið yfir okkur?
Ýmsir munir voru til sýnis frá tímum slátrunar og sundmagavinnslu sem var um skamma hríð í húsinu eftir að slátrun var hætt. Stimplar, vigtarseðlar, skilagreinar, fundið hér á undanförnum tveimur árum.
Einnig var sýnt myndband sem Guðlaugur Heiðar Jakobsson úr Bölta í Skaftafelli tók í síðustu sláturtíðinni hér 1988.
Lesin var upp vísnakeðja Þorsteins Jóhannssonar í Svínafelli og Halldóru Magnúsdóttur sem vann hjá Afurðarsölu S.Í.S. Fyrsta vísan barst með flugi 1966, en flogið var með sláturafurðir til Reykjavíkur áður en hringvegurinn var opnaður, eftir að strandflutningar lögðust af, og entust þessi samskipti þónokkrar sláturtíðir og lífguðu uppá kaffitíma sveitunga.
Flutt var frásögn úr sláturtíð, spilað var á harmónikku, myndlist sýnd og eldsmíðisgripir. Boðið var upp á baunarétt. Dread Lightly hélt tónleika í lok kvöldsins.
Eva útskrifaðist úr myndlist frá Gerrit Rietveld Academie í Amsterdam árið 2016 og Peter Ålander maðurinn hennar er áhugamaður um eldsmíði og matargerð.

Myndir: Jón Ágúst Guðjónsson og Ólafur Jón Thoroddssen.