Vorverkin

0
430

Vorið er komið og sumarið á næsta leiti og því margir eflaust farnir að huga að garðinum sínum og þeim verkefnum sem þar bíða.
Umhverfis-og skipulagssvið Sveitarfélagsins Hornafjarðar vill koma nokkrum ábendingum á framfæri í því tilefni.

  • Það er ekki hægt að eitra fyrir skordýrum sem vilja gæða sér á grænum og gómsætum blöðum áður en þau mæta á svæðið! Ef þið hafið samt sem áður áhuga á slíkri þjónustu þá er mikilvægt að skoða garðinn sinn vel og gera sér grein fyrir því hverju er hægt að eitra fyrir og hvað ekki. Sumar skordýrategundir er nánast sem ómögulegt að eitra fyrir á vorin án þess að eitra svo gott sem heilu göturnar eða hverfin í einu sem heild.
  • Núna er rétti tíminn til að hefjast handa við að klippa trjágróður sem vex út fyrir lóðamörk svo hann hindri ekki vegfarendur, hylji umferðarskilti eða dragi úr götulýsingu. Gangandi og hjólandi þurfa að eiga greiða leið um gangstíga. Garðaeigendur eru minntir á að samkvæmt byggingarreglugerð þurfa þeir að halda gróðri innan lóðamarka. Þar segir: „Lóðahafa er skylt að halda vexti trjáa eða runna á lóðinni innan lóðamarka. Sinni hann því ekki og þar sem vöxtur trjáa eða runna fer út fyrir lóðamörk við götu, gangstíga eða opin svæði er veghaldara eða umráðamanni svæðis heimilt að fjarlægja þann hluta er truflun eða óprýði veldur, á kostnað lóðahafa að undangenginni aðvörun“ Sjá nánar: Byggingarreglugerð nr. 112/2012 (7.2.2.gr)
  • Gott er að leita til fagfólks um ráðgjöf t.d. þegar kemur að klippingu stórra trjáa eða þegar vafi leikur á um umhirðu trjágróðurs, til að koma í veg fyrir mögulegar skemmdir.

Með von um að veður fari að hlýna sem fyrst, óskum við ykkur gleðilegs sumars.