Vöruhúsið 2019

0
846

Starfsemi í Vöruhúsinu var með svipuðu sniði og undanfarin ár, mörg verkefni litu dagsins ljós, námskeið haldin og formleg kennsla í Fab Lab smiðjunni og öðrum rýmum eins áður hjá grunn– og framhaldsskólanum.
Verksmiðjan 2019 er verkefni sem var unnin í samstarfi við RÚV og aðrar stofnanir með það að markmiði að auka áhuga ungmenna og forritun. Verkefnið var sett upp sem keppni í nýsköpun og útkoman var 5 sjónvarpsþættir sem sýndir voru á vormánuðum. Aron Freyr Borgarsson tók þátt og komst í 10 manna úrslit með verkefninu sínu Eltivekjarinn. Aron er einn af þeim nemendum sem hefur mikinn áhuga tækni og forritun og stóð hann sig mjög vel í Verksmiðjunni. Það hjálpaði til að í byrjun árs var haldin róbótasmíði-val í Fab Lab fyrir grunnskólanema en sú þekking sem varð til þar yfirfærðist yfir á Eltivekjara hugmyndina. Til þess að svona verkefni geti orðið að raunveruleika þarf góðan undirbúning en árið áður einsettum við okkur að auka vægi forritunar og tækni í því námi sem boðið er upp á. Þeim markmiðum var náð með því að búa til kennsluefni á íslensku í Arduino iðntölvum og forritun fyrir nemendur. Það er gríðarlega mikilvægt að ungmennin okkar fái að kynnast þeim tækifærum sem felast í þekkingu á þessu sviði því forritun og tækni er jú framtíðin. Við erum á hraðri leið inn í fjórðu iðnbyltinguna.

Eitt af þeim fjölmörgu verkefnum sem unnið var í Vöruhúsinu árið 2019

Fjölmörg verkefni voru unnin sem tengjast atvinnulífinu. Ferðaþjónustufyrirtæki og veitingastaðir nýta sér smiðjuna í auknum mæli til þess að bæta ímynd fyrirtækjanna með sérsmíðuðum hlutum sem tengjast þeirra starfsemi. Þetta eru hlutir eins og skilti, lyklakippur, plattar, standar, vínyl merkingar, gluggamerkingar, glasarekkar svo mætti lengi áfram telja. Það er enginn vafi að Fab Lab smiðjan er beinn stuðningur við fyrirtæki á svæðinu sem nýta sér þjónustuna.
Eftir miklar og vel heppnaðar breytingar á miðhæð Vöruhússins og að utan, flutti list- og verknámshluti grunnskólans aftur inn í húsið í októberlok. Mikil röskun varð á starfsemi Vöruhússins meðan á breytingunum stóð, en biðin var vel þess virði því útkoman er mjög góð. Einn hluti breytinga á miðhæðinni var að setja upp 100 fermetra sal sem áætlað er að nýta á ýmsa vegu t.d. í kennslu, til fundarhalda, sýningarhalds eða fyrir aðra viðburði. Næsta vor verður svo haldið áfram með framkvæmdirnar en þá verður efsta hæðin tekin í gegn, komið fyrir lyftu og loftræstisamstæða fyrir allt húsið sett upp. Á Hafnarhittingi 13. nóvember var íbúum boðið að koma og sjá breytingarnar og kynna sér starfsemi Vöruhússins. Á þann viðburð komu um 200 manns.

Reglulega eru haldin námskeið til að fólk geti nýtt sér Fab Lab smiðjuna í Vöruhúsinu

Hluti af þróunarstarfi Fab Lab smiðjunnar er að bjóða upp á nám í Fab Academy. Tveir nemendur frá Höfn hafa lokið námi þar og einn nemandi sótt um nám við akademíuna árið 2020. Framkvæmd kennslunnar verður unnin í samstarfi við Fab Lab Reykjavík vegna þeirra hindrana sem framhald framkvæmdanna hafa í för með sér. Fab Academy er diploma nám í starfrænni framleiðsutækni og er tekið í fjarnámi í Fab Lab smiðjum landsins
Við sem stöndum að Vöruhúsinu erum spennt fyrir árinu 2020 og ætlum að halda áfram að bjóða upp á ýmis námskeið tengd nýsköpun, list- og verkgreinum. Ég vil hvetja alla sem hafa áhuga að nýta sér Vöruhúsið og Fab Lab smiðjuna að koma við og kynna sér aðstöðuna.
Verið velkomin !

Vilhjálmur Magnússon
Forstöðumaður Vöruhúss
og Fab Lab Smiðju Hornafjarðar.