Vöktun á vaðfuglum á leirum umhverfis Höfn

0
1555
Lilja við talningar úr Standey en til verksins eru notuð öflug fjarsjá og sjónauki. Mynd: Snævarr Guðmundsson

Við Náttúrustofu Suðausturlands eru unnin fjölbreytt verkefni tengd náttúru svæðisins. Í sumar hóf dr. Lilja Jóhannesdóttir störf hjá stofunni en hún er vistfræðingur að mennt. Lilja er ekki ókunnug svæðinu en hún bjó til 13 ára aldurs á Nýpugörðum á Mýrum. Rannsóknir hennar hafa að mestu beinst að tengslum vaðfugla og landnýtingar. Eitt af verkefnum Lilju er að fylgjast með fjölda vaðfugla á leirunum umhverfis Höfn. Á Íslandi eru ofurstórir vaðfuglastofnar afar áberandi í tegundafábreyttu landinu. Hvert mannsbarn þekkir angurvært bí lóunnar og hnegg hrossagauksins. Vegna þeirra stóru stofna sem finnast hérlendis berum við Íslendingar sérstaka ábyrgð á velferð þeirra og þurfum að gæta að þeim búsvæðum sem þeir nýta. Leirur eru afar mikilvægar fyrir fæðuöflun vaðfugla og safnast þeir saman í stórum hópum, sérstaklega um fartímann að vori og hausti. Vöktun er nauðsynleg til að geta fylgst með breytingum á stofnstærð sem og breytingum á háttum. Í kjölfar loftslagsbreytinga hafa sumar tegundir verið að breyta fartímanum og koma nú fyrr að vori en áður. Leirurnar umhverfis Höfn eru einstaklega mikilvægar enda það svæði sem farfuglarnir koma fyrst að eftir flugið frá Evrópu og Afríku. Fylgst hefur verið með fjölda vaðfugla á leirunum að vori fyrir stök verkefni, en ekki hefur fyrr verið gert átak í að fylgjast með fjöldanum árið um kring.